Frá brúnni á Jökulfalli að Leppistungum á Hrunamannaafrétt.
Greið leið um eyðimerkurnar vestan og sunnan Kerlingarfjalla.Á síðari hluta leiðarinnar er stuttur afleggjari til Fosslækjar, þar sem er fjallaskáli í gróðurvin, þar sem sagður er hafa verið heiðarbær fyrr öldum. Engar menjar finnast samt um slíkan bæ. En gott er að gista í Fosslækjarveri sem og í Leppistungum eftir ferð ofan úr eyðimörkinni við Kerlingarfjöll. Síðan brúin kom yfir Jökulkvísl á veginum af Kili til Kerlingarfjalla, hefur þetta verið algeng ferðaleið hestamanna. Úr sveitum austan Hvítár hafa menn farið þessa leið í flokkum á landsmót í Skagafirði. Gamla leiðin lá miklu vestar og sunnar, yfir Grjótá í Hrafntóftaveri, síðan um Grjótártungu og yfir Jökulkvísl á vaði við Hvítárbrú norðan Bláfells.
Byrjum í 660 metra hæð á veginum frá Kili til Kerlingarfjalla, þar sem komið er austur yfir brúna á Jökulfalli. Við brúna er jeppaslóð suður með fjöllunum í Leppistungur og áfram til byggða austan Hvítár. Frá brúnni förum við þá slóð suður að Kerlingarfjöllum og síðan meðfram þeim, suður með vesturjaðri Skeljafells og síðan milli Mosfells að vestanverðu og Kúpu að austanverðu. Þar förum við hæst í 700 metra hæð. Síðan hallar slóðinni niður til suðurs og síðan til vesturs að Búðarhálsi. Við höldum áfram frá vegamótunum til suðausturs yfir norðurenda Miklumýra og komum að vesturhlið Kerlingaröldu. Við förum suður með henni að fjallaskálanum Leppistungum, sem er í 500 metra hæð undir Stóra-Leppi.
24,3 km
Árnessýsla
Skálar:
Kerlingarfjöll: N64 41.074 W19 18.119.
Leppistungur: N64 31.933 W19 29.046.
Jeppafært
Nálægir ferlar: Hrunamannaafréttur, Illahraun, Jökulfall.
Nálægar leiðir: Sandá, Leirá, Rjúpnafell, Klakkur, Grjótá.
Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Jónas Kristjánsson