Millifærslu-ríkisstjórn.

Greinar

Með hverri ráðstöfun, sem líður, kemur betur í ljós, að ríkisstjórnin ræður ekki við verkefni sín. Hún tekur oftar en ekki rangar ákvarðanir, þá sjaldan hún fer út fyrir hin hefðbundnu íhaldsúrræði allra íslenzkra ríkisstjórna.

Einkunnarorð ríkisstjórnarinnar eru millifærslur. Nú síðast hefur hún tekið rekstrarfé eins fyrirtækis, Seðlabankans, og afhent útflutningsatvinnuvegunum í sárabætur fyrir of litla verðhækkun erlendra gjaldmiðla.

Gengistryggðum afurðalánum verður breytt í innlend lán með föstum vöxtum. Seðlabankinn á hér eftir að greiða 35%. vexti á frysta féð úr bankakerfinu og endurlána það síðan til útflutningsatvinnuveganna með 29% vöxtum.

Þetta er gert í trausti þess, að flestir hafi samúð með útflutningsatvinnuvegunum og fæstir með Seðlabankanum. En ekki kann góðri lukku að stýra, að innikróuð ríkisstjórn skuli telja sig þurfa að grípa til hreinnar vitleysu.

Þar á ofan er ríkisstjórnin með þessu byrjuð að andæfa gegn lögmáli verðtryggingar fjárskuldbindinga. Hún snýr við á miðri leið verðtryggingar og byrjar að millifæra sparifé til vildarvina allra ríkisstjórna, skuldakónganna.

Þetta er auðvitað sama ríkisstjórnin, sem lætur skattgreiðendur ábyrgjast kaup á togurum, sem skuldakóngar ætla að gera út án þess að greiða eina krónu í vexti, hvað þá afborganir. Þetta er svokölluð byggðastefna.

Og þetta er auðvitað ríkisstjórnin, sem farin er að dunda við að færa fé milli deilda Verðjöfnunarsjóðs fiskiðnaðarins, samkvæmt þeirri brengluðu hugsjón, að peninga skuli taka úr arðbærum rekstri og flytja í taprekstur.

Í fyrstu gerir ríkisstjórnin þetta með því að láta endurgreiðslur gengishagnaðar ekki renna í réttum hlutföllum til einstakra deilda verðjöfnunarsjóðs. Slíkar óbeinar millifærslur gera sama ógagn og beinu millifærslumar.

Ríkisstjórnin leitar án afláts að matarholum, sem hún geti rænt til að verðlauna eymdina. Á fínu máli heitir þetta millifærsla og dugar nokkuð vel í tryggingakerfinu, en hefur hrikalegar afleiðingar í kerfi verðmætasköpunar.

Þótt rétt sé að millifæra til sjúkra, slasaðra, aldraðra, barnþungra og einstæðra, er alrangt að beita sömu aðferðum í atvinnulífinu, sjálfri uppsprettu verðmætanna, sem notuð eru í tryggingakerfinu og annars staðar.

Í efnahagslífinu þarf ríkisstjórnin að hætta millifærslum, svo að atorka, hugvit og auður streymi til þeirra athafna, sem bezt eru hæfar til að halda uppi lífsgæðum í landinu.

Hætta þarf millifærslum frá útflutningsatvinnuvegum með falsaðri gengisskráningu. Í stað þess ber að gera gjaldeyrisverzlun frjálsa. Hætta þarf millifærslum frá sparifjáreigendum með falsaðri vaxtaskráningu. Í stað þess ber að gera vexti frjálsa.

Sömuleiðis ber að hætta styrkjum til atvinnuvega, hvort sem þessir styrkir heita styrkir, óafturkræf framlög, niðurgreiðslur, uppbætur, einkasala eða innflutningshöft.

Því miður fetar ríkisstjórnin hægt en örugglega lengra út í hið gamalkunna fen millifærslna. Efnahagsráðstafanir þessarar viku eru hörmulegt dæmi um, að afturhaldið er að verða ofan á hjá aðþrengdri ríkisstjórn.

Jónas Kristjánsson

Dagblaðið