Millifærslu-Sambandið

Greinar

Samband íslenzkra samvinnufélaga hefur beðið mikinn álitshnekki af kaffibaunamálinu. Að vísu er ákæra enginn dómur, en ákæruatriði ríkissaksóknara eru alvarlegs eðlis. Þau vísa til ýmissa lagagreina, þar sem gert er ráð fyrir margra ára varðhaldsrefsingu.

Varnir forustumanna Sambandsins hafa hingað til verið léttvægar. Þeir hafa gert mikið úr, að Sambandið eða samvinnuhreyfingin hafi ekki verið ákærð, heldur nafngreindir einstaklingar. En lögum samkvæmt þurfa slíkar ákærur að beinast að fólki og ekki stofnunum.

Flest bendir til, að í málflutningi muni af hálfu Sambandsins verða haldið fram, að um afsakanlega lögvillu, vanþekkingu eða misskilning hafi verið að ræða og því megi færa refsingu niður úr lágmarkinu, sem ákveðin er í lagagreinunum, er ákæran vísar til.

Þetta er ekki í fyrsta sinn, sem Sambandið eða fyrirtæki á vegum þess lenda í vafasömum málum. Frægt var olíumálið á sínum tíma. Samt hefur mörgum fundizt liggja í loftinu, að Sambandið væri svo voldugt, að almennar reglur um fyrirtæki næðu ekki til þess.

Samkvæmt ákærunni hefur Sambandið ekki þessa sérstöðu. Eins og önnur fyrirtæki verður það að hafa bókhaldið hreint. Því dugir ekki frekar en öðrum að hagræða summum milli liða. Vonandi draga forustumenn þess lærdóm af útreiðinni, sem það fær nú.

Líklegt er, að Sambandið hafi farið offari á fleiri sviðum, þótt ekki sé það eins áþreifanlegt og kaffibaunamálið. Dæmi eru um, að það hafi legið á upplýsingum, sem gætu bent til, að stofnanir þess hagræði tölum á kostnað bænda, neytenda og skattgreiðenda.

Landssamband sauðfjárbænda var beinlínis stofnað í fyrra til að gæta hagsmuna þeirra gagnvart kaupfélögunum og Sambandinu. Á stofnfundi þess var krafizt opinberrar rannsóknar á verðmyndun á gærum og krafizt breyttrar afurðasölu samvinnuhreyfingarinnar.

Oft hefur komið fram, að lítil er trú manna á tölur sláturfélaganna og Sambandsins um sláturkostnað, geymslukostnað og flutningskostnað, enda hefur sundurliðun slíkra upplýsinga jafnvel verið haldið leyndri fyrir Alþingi, þótt til sé og eftir hafi verið leitað.

Ef sumar tölur um blýantskostnað og annan skrifstofukostnað í tengslum við slátrun, geymslu og flutning eru reiknaðar fram, koma út ævintýralegar niðurstöður, sem eru ekki í nokkru minnsta samhengi við raunveruleikann, er menn sjá, svo sem í mannahaldi.

Svo virðist sem það varði Sambandið engu, hversu lengi kjötið sé geymt, hvenær það sé selt og á hvaða verði. Ríkið borgar geymsluna svo vel, að margir telja, að hún sé arðvænlegri en salan. Ríkið borgar svo útflutninginn og sölulaun Sambandsins eru óháð verðinu.

Ef sláturfélög og Sambandið hagnast á geymslu kjöts, sölu þess til útlanda og á annarri slíkri iðju, er nauðsynlegt að grípa í taumana. Bændur telja sig hlunnfarna í þessum viðskiptum og skattgreiðendur þurfa að greiða miklar summur í niðurgreiðslur og uppbætur.

Nauðsynlegt er, að þjóðfélagið hafi aðstöðu til að kanna rækilega, hvernig kostnaður skiptist hjá risafyrirtæki eins og Sambandinu, sem liggur undir gagnrýni af ofangreindu tagi. Samanlagt er um að ræða ágreiningsefni, sem gætu hæglega skipt hundruðum milljóna.

Millifærslur samvinnuhreyfingarinnar í kaffibaunum benda eindregið til millifærsla á öðrum sviðum.

Jónas Kristjánsson

DV