Milljón króna menn

Greinar

Þegar Verkamannasambandið semur um 35.000 króna lágmarkslaun, berast fréttir af ágreiningi æðstu manna Sambands íslenzkra samvinnufélaga um túlkun á forstjórasamningi, þar sem milljónir ber á milli. Þetta eykur tal um eðlilegt og óeðlilegt tekjubil í landinu.

Samanburður af þessu tagi er ýmsum annmörkum háður, ekki sízt þegar hærri launin eru í raun hluti af tekjubili í öðru þjóðfélagi. Í Bandaríkjunum hefur jafnan tíðkazt mikið bil í lífskjörum fólks, en hér hefur lengst af verið státað af tiltölulega miklum tekjujöfnuði.

Ekki virðist óeðlilegt, að forstjórar íslenzkra fyrirtækja í Bandaríkjunum hafi kjör, sem dragi dám af kjörum starfsbræðra í þarlendum fyrirtækjum, sem hafa svipaðan arð og íslenzku fyrirtækin. Hægt er að ímynda sér, að forstjórarnir vinni fyrir slíkum kjörum.

Léttara er að gagnrýna háar tekjur forstjóra ýmissa fyrirtækja hér heima, þar sem yfirleitt er ekki þvílík arðsemi, sem algeng er vestan hafs. Í sumum tilvikum virðist markmið íslenzkra fyrirtækja fremur vera að framfleyta forstjórum en magna arð og þjóðararð.

Hafa verður í huga, að góð lífskjör eins eru ekki endilega eða oftast fengin á kostnað lífskjara annars. Þess er krafizt af stjórnendum, að þeir búi til verðmæti, sem ekki voru til, finni til dæmis leiðir til að framleiða eða selja vöru eða þjónustu mun ódýrar en áður var gert.

Ef lögð eru saman einstök dæmi um lífskjör, sem að almannaáliti eru óeðlilega góð, er ólíklegt, að heildarmismunurinn verði þvílíkur, að hann skipti umtalsverðu máli í heildarrekstri þjóðfélagsins, ekki sízt þar sem lífskjör almennings eru meðal hinna beztu í heimi.

Málið verður alvarlegra, þegar það er skoðað í samhengi við einstæðu mæðurnar og aðra, sem hafa 35.000 krónur á mánuði. Í slíkum lágtekjum, jafnvel þótt umsamdar séu, felst þjóðfélagslegt vandamál, jafnvel þótt segja megi, að sum störf séu ekki meiri peninga virði.

Til dæmis er örugglega ekki 35.000 króna virði að prjóna trefla handa Sovétmönnum. En það er ekki prjónakonum að kenna, heldur stjórnvöldum, sem gera margvíslegar tilraunir til að halda úti arðlausri iðju, jafnvel heilum atvinnuvegum, svo sem landbúnaði.

Væru þjóðminjar af þessu tagi lagðar af, yrðu prjónakonur og bændur af tekjum. Sem betur fer er nóg af arðbærum verkefnum í þjóðfélaginu, eins og atvinnuauglýsingar í dagblöðum sýna. Við höfum verk að vinna að þjálfa bændur og marga aðra til arðbærra starfa.

Eitt veigamesta verkefni stjórnmálanna ætti að vera fólgið í að leggja niður hindranir í vegi atvinnuþróunar úr arðlitlum fortíðargreinum í arðmiklar framtíðargreinar og að bjóða fólki margvíslega endurmenntun til að auðvelda því breytinguna og hraða henni.

Aldrei verður unnt að lögbinda ákveðið hámarksbil launa í þjóðfélaginu. Veruleikinn skýtur sér alltaf undan stjórnmálamönnum og embættismönnum, sem reyna að skipuleggja hann. Hins vegar þarf að vera umræða um bilið, svo að um það sé eins konar þjóðarsátt.

Fullyrða má, að Íslendingar séu svo jafnréttissinnaðir, að þeir telji launabil frá 35.000 krónum upp í milljón krónur á mánuði vera ósiðlegt. Ekki er fráleitt, að óformlegt samkomulag geti verið um, að siðlegt sé, að þetta bil sé frá 50.000 krónum upp í 250.000 krónur.

Neðri kantinum má lyfta með breytingu á atvinnuháttum. Um efri kantinn er minna hægt að segja, þótt ótrúlegt sé, að margir geti hér verið milljón króna menn.

Jónas Kristjánsson

DV