Mín og þín hryðjuverk

Greinar

Bandaríkin eru með hjálp Evrópu og fjölda annarra ríkja að leita uppi hryðjuverkamenn, sem skipulögðu árásina á Bandaríkin 11. september, svo og stjórnvöld, sem veittu þeim skjól og veita enn. Eðlilegt er, að allir þessir aðilar hljóti fyrr eða síðar makleg málagjöld.

Jafnframt þurfa Vesturlönd út af fyrir sig að hefja skipulegar aðgerðir til að hindra frekari hryðjuverk, sem beinast sérstaklega að Vesturlöndum sem slíkum. Það er afmarkað vandamál, sem verður ekki höndlað skynsamlega, nema menn átti sig á einföldum rótum þess.

Hryðjuverk gegn Vesturlöndum eru fyrst og fremst framin af rugluðum ofsatrúarmönnum af sértrú Wahhabíta, sem hafa gengið í trúarofstækisskóla, kostaða af konungsættinni í Sádi-Arabíu, þar sem virkjuð er almenn gremja vegna stuðnings Bandaríkjanna við Ísrael.

Vesturlöndum ber öryggishagsmuna sinna vegna að hefja aðgerðir gegn heiftarhættu, sem á rætur sínar í framgöngu ríkisvaldsins í Sádi-Arabíu og Ísrael. Þar fyrir utan er skynsamlegt fyrir Vesturlönd að stuðla að almennu viðnámi gegn hryðjuverkum yfirleitt.

Þegar út í þá sálma er komið, er nauðsynlegt að átta sig á, að mestur hluti hryðjuverka í heiminum er ekki framinn af einstaklingum eða hópum einstaklinga, heldur af ríkisstjórnum og umboðsmönnum þeirra í her og lögreglu. Það eru hin dæmigerðu hryðjuverk nútímans.

Í þessum hópi eru harðstjórnir tindáta víðs vegar um þriðja heiminn, svo og ríki á borð við Rússland og Kína, sem vilja nota bandalagið gegn Osama bin Laden til að fá betri frið til að stunda hryðjuverk á hernumdum svæðum, svo sem í Tsjestjeníu, Tíbet og Sinkíang.

Ekki má heldur gleyma, að mikið af hryðjuverkum nútímans er framið með jarðsprengjum, sem hafa þá eiginleika, að hermenn kunna að vara sig á þeim, en börn og gamalmenni alls ekki. Daglega deyja börn og enn fleiri börn verða örkumla af völdum þessa hræðilega vopns.

Bandaríkjastjórn hefur neitað að skrifa undir fjölþjóðasáttmála á vegum Sameinuðu þjóðanna um bann við sölu og notkun jarðsprengja, rétt eins og hún er að undirbúa afturhvarf frá fjölþjóðasáttmála á vegum Sameinuðu þjóðanna um bann við tilraunum með sýklavopn.

Árás hryðjuverkamanna á World Trade Center og Pentagon ætti að hafa vakið Bandaríkjastjórn til meðvitundar um, að það er í þágu Bandaríkjanna eins og afgangsins af mannkyninu, að fjölþjóðlegu sáttmálarnir um jarðsprengjur og sýklavopn nái fram að ganga nú þegar.

Hún ætti líka að hafa vakið Bandaríkjastjórn til meðvitundar um, að fjölþjóðlegi stríðsglæpadómstóllinn, sem hefur að tilhlutan Evrópu, en gegn andstöðu Bandaríkjanna, verið komið upp á vegum Sameinuðu þjóðanna, hentar Bandaríkjamönnum ekki síður en öðrum þjóðum.

Það er nefnilega komið í eindaga hjá Bandaríkjunum að láta af siðlausri andstöðu sinni við fjölþjóðlegt samstarf um ýmis almenn öryggismál mannkyns, svo sem um ofangreinda fjölþjóðasamninga og um verndun lofthjúps jarðar, sem almennt samkomulag er um í heiminum.

Ríki, sem er í innilegu bandalagi við hryðjuverkaríki á borð við Sádi-Arabíu og Ísrael, í hagsmunabandalagi við hryðjuverkaríki á borð við Rússland og Kína og neitar að taka þátt í fjölþjóðasáttmálum um ýmis atriði, sem varða öryggi mannkyns, hefur tapað áttum í tilverunni.

Bandaríkjamenn þurfa almennt að spyrja sig, hvar enda hin vondu og skelfilegu hryðjuverk allra hinna og hvar byrja mín eigin góðu og nauðsynlegu hryðjuverk.

Jónas Kristjánsson

DV