Gildi herstöðvarinnar á Keflavíkurflugvelli hefur snöggminnkað og mun áfram minnka á næstu árum, ef ekki verða snögg skipti á stjórnarfari í Rússlandi. Eftirlit með hernaðarskipum, -kafbátum og -flugvélum verður ekki eins brýnt og var á dögum Sovétríkjanna.
Lýðræðislegt Rússland hefur erft hernaðarmátt Sovétríkjanna í Murmansk og á Kólaskaga. Þaðan hafa komið og munu koma þau hernaðartæki, sem talið hefur verið og talið verður skynsamlegt að fylgjast með í nágrenni við íslenzku hliðin í Norður-Atlantshafi.
Meðan enn er hætta á bakslagi í Rússlandi heldur herstöðin á Keflavíkurflugvelli hluta af fyrra gildi sínu. Mikil óánægja er með verðhækkanir í Rússlandi. Afturhaldsöflum í her og kommúnistaflokki landsins gæti tekizt að virkja hana til gagnbyltingar.
Ef Rússum tekst að varðveita nýfengið lýðræði, dregur smám saman úr möguleikum afturhaldsaflanna á að hrifsa til sín völd. Um leið minnkar hættan við íslenzku hliðin á Norður-Atlantshafi og verður fljótlega fyrst og fremst fræðilegs eðlis, en ekki raunveruleg.
Átök í sunnanverðum erfðaríkjum Sovétríkjanna og á Balkanskaga skipta litlu hér norður í höfum. Erfðadeilur og önnur eftirmál heimsveldishrunsins hafa ekki og munu ekki hafa áhrif á öryggi á Íslandi og hafsvæðum þes. Sá vandi verður austar og sunnar í álfunni.
Staðreyndin er einfaldlega sú, að dauður er “vondi” karlinn í tilveru Atlantshafsbandalagsins og varnarliðsins á Keflavíkurflugvelli. Þetta bakar bandalaginu tilvistarvanda og varnarliðinu tilvistarhrun. Þannig veit enginn, hvað átt hefur, fyrr en misst hefur.
Í sjónmáli er nýr óvinur vestursins. Sá verður erfiðari viðfangs en Sovétríkin, því að hann hefur meiri innri sannfæringarkraft og hefur önnur markmið en hinn fyrri óvinur. Þetta er Íslam, eini marktæki hemillinn á útbreiðslu vestræns lýðræðis um allan hnöttinn.
Hættan frá Íslam kemur einkum fram á suðurmörkum hins vestræna heims, við Miðjarðarhaf og Svartahaf, fjarri Íslandi og varnarliði þess. Atlantshafsbandalagið mun varðveita tilverurétt sinn með því að beina sjónum sínum frá norðri til þessara suðlægu átta.
Hryðjuverkahætta, sem einkum stafar frá Íslam, mun einnig fara vaxandi með aukinni spennu vesturs og Íslams. Hættan er ekki bundin við suðurmörk vestræns lýðræðis. Hana getur borið niður hvar sem er, til dæmis á Íslandi, en einkum í stórborgum Vesturlanda.
Skynsamlegt væri að beina viðbúnaði á Keflavíkurflugvelli í auknum mæli gegn hugsanlegum árásum fámennra hryðjuverkahópa. Sá viðbúnaður hlýtur að vera allt annars eðlis en hinn hefðbundni viðbúnaður, sem var miðaður við atómstríð vesturs og austurs.
Minnkandi gildi herstöðvarinnar á Keflavíkurflugvelli og breytt viðfangsefni í vörnum landsins munu kalla á endurskoðun varnarmála. Betri efnisrök verða fyrir því, að Íslendingar taki sjálfir að sér eftirlit og hryðjuverkavarnir að töluverðu eða öllu leyti.
Þar sem Norður-Atlantshafið er ekki lengur í spennumiðju alþjóðamála, er komin ný staða, sem kann að auðvelda Bandaríkjunum og Atlantshafsbandalaginu að komast að raun um, að bezt sé, að Íslendingar taki við leifunum af hlutverki Keflavíkurflugvallar.
Ekki þýðir að láta eins og ekkert hafi í skorizt, þótt kalda stríðið hafi hrunið. Gildi Keflavíkurflugvallar verður óhjákvæmilega annað og minna en verið hefur.
Jónas Kristjánsson
DV