Á mínum yngri árum drakk ég stanzlaust kaffi í vinnunni, 20-30 bolla á dag. Yfirleitt var þetta þunnur uppáhellingur. Löngu seinna lærði ég að meta sterkt kaffi, einkum espresso. Mér til mikillar furðu minnkaði kaffinotkun mín við að fá almennilegt kaffi. Í mörg ár hef ég drukkið einn-tvo bolla á dag af sterku kaffi. Það nægir mér yfir daginn. Ef ég slysast til að drekka þunnan uppáhelling, fæ ég ógleði í magann. Jafnvel veikt espresso hefur vott af sömu áhrifum. Kaffi verður að vera afar sterkt til að fara vel í mig. Og það kallar ekki á löngun til að súpa aukið magn af hinum rómaða fíkni-drykk.