Kannski var það Naustinu að þakka, að ég náði í konu fyrir rúmlega fjórum áratugum. Þá var ég ungur og ríkur og borðaði þar öll laugardagskvöld. Körfukjúklingur var frægasti rétturinn, en við snæddum jafnan Chateaubriand à la Béarnaise. Þegar matarbyltingin kom síðar til Íslands, fattaði ég, að maturinn í Naustinu hafði alltaf verið afspyrnu lélegur. Í 40 ár lifði fagurt húsnæðið á frægð þorramatar. Átta ár eru síðan ég kom þangað síðast. Nú er búið að rífa frægðina til að setja upp sætsúrar sósur og Pekingendur. Ég sé eftir staðnum vegna tilhugalífsins og innréttinganna.