Minnisstæð óskammfeilni

Greinar

Tilraun Pósts og síma til að hafa aukið fé af fólki var ekki stöðvuð af stjórnarmönnum fyrirtækisins, sem skipaðir eru af stjórnmálaflokkunum. Hún var hvorki stöðvuð af samgönguráðherra, sem studdi hana af kappi, né af viðskiptaráðherra, sem lét sér fátt um finnast.

Sem oftar var það forsætisráðherra, sem varð að taka fagráðherrann á beinið og segja honum, að svona geri maður ekki. Forsætisráðherra hefur enn einu sinni orðið að taka að sér að segja ráðherrum sínum, hvað fólk sé að hugsa fyrir utan fílabeinsturninn þeirra.

Minnisstæðast við snöggan bardaga þjóðar og einokunarfyrirtækis var óskammfeilni aðstandenda hækkunarinnar og hroki þeirra, þegar á hólminn var komið í fjölmiðlum. Búast má því við, að í skjóli einokunar verði leitað annars lags til að hafa fé af fólki.

Blaðurfulltrúi Pósts og síma hrósaði opinberlega happi yfir því, að fjölmiðlar hefðu ekki forsendur til að vefengja lygar fyrirtækisins, þar sem það neitaði að láta af hendi útreikninga að baki hækkunar á símgjöldum á þeim forsendum, að þeir væru viðskiptaleyndarmál.

Fulltrúinn gerðist um leið gamansamur og sagði, að menn yrðu bara að trúa Pósti og síma. Það var auðvitað það síðasta, sem mönnum datt í hug. Utan einokunarkerfisins gengu menn réttilega að því sem vísu, að talsmenn Pósts og síma færu jafnan með rangt mál.

Ekki er hægt að bera viðskiptaleynd einokunarfyrirtækis saman við viðskiptaleynd fyrirtækja á samkeppnismarkaði. Póstur og sími var enn einu sinni að hækka gjöld í skjóli einokunar og gat ekki vikizt undan því að leyfa þjóðinni að skoða útreikningana að baki.

Hroki blaðurfulltrúans og forstjóra hans var til þess fallinn að hella olíu á eldinn. Fólk fékk innsýn í hugarfarið að baki hækkunarinnar og því líkaði ekki það, sem þar sást. Seinþreyttir til vandræða streymdu menn meira að segja á útifund til að mótmæla.

Póstur og sími hafði hækkað venjuleg símgjöld hvað eftir annað undanfarin misseri til þess að mjólka einokunarmarkaðinn og afla þannig fjár til að taka upp óheiðarlega samkeppni á öðrum sviðum. Þetta er vel þekkt fyrirbæri í hinum séríslenzka einokunarbransa.

Yfirmenn Pósts og síma töldu samgönguráðherra trú um, að í Eyjafirði græddu menn á hækkuninni, þótt menn töpuðu á henni í Reykjavík. Ráðherranum finnast slíkar fréttir jafnan góðar, en þær voru að þessu sinni rangar. Eyfirðingar vissu, að þeir töpuðu líka.

Halldór Blöndal ráðherra hefur alltaf stutt einokun gegn samkeppni. Í hans augum táknar einkavæðing, að ríkisfyrirtæki geti leikið lausum hala í skjóli einokunaraðstöðu. Hann ber ábyrgð á að hafa leyft Pósti og síma að ganga berserksgang í verðhækkunum.

Gegn slíkri framsóknarhyggju frá kreppuárunum höfum við mesta vörn í samningum okkar við fjölþjóðlegar stofnanir um viðskiptafrelsi. Einkum hefur ráðið úrslitum aðild okkar að Evrópska efnahagssvæðinu, sem færir okkur mola af frelsisborði Evrópusambandsins.

Samkvæmt reglum, sem við höfum játazt undir, verða ráðamenn þjóðarinnar að sætta sig við, að frelsi sé aukið í viðskiptum. Þannig munu erlend símafélög vonandi hasla sér völl á svipaðan hátt og útlent bílatryggingafélag hefur þegar sparað þjóðinni hundruð milljóna.

Þá mun Pósti og síma hefnast fyrir að búa sig rangt undir framtíðina. Í stað þess að hagræða í rekstri ákvað fyrirtækið að mjólka aðstöðuna meðan sætt væri.

Jónas Kristjánsson

DV