Minnisvarði boðinn upp

Greinar

Verksmiðja, sem skuldar 115 milljónir króna, var í þessari viku slegin Ríkisábyrgðasjóði á nauðungaruppboði fyrir þrjár milljónir króna. Þar með er staðfest, að þjóðin hefur orðið fyrir að minnsta kosti 112 milljón króna tjóni af Þörungavinnslunni á Reykhólum.

Fyrr í vetur lagði þáverandi iðnaðarráðherra til, að verksmiðjan, sem er 97% í eigu ríkisins, yrði gefin heimamönnum. Það er ekki fráleit hugmynd og hugsanlega framkvæmanleg, þegar opinberir aðilar eru búnir að taka á sig 115 milljón króna skellinn allan.

Rétt væri þó að hækka þennan kostnað um lítið brot úr milljón til þess að reisa á verksmiðjusvæðinu höggmynd af núverandi forsætisráðherra. Það fæli aðeins í sér lítinn aukakostnað og yrði verðugur minnisvarði um iðnþróunaráform íslenzkra stjórnmálamanna.

Þörungavinnslan var reist fyrir rúmum áratug sem sérstakt gæludýr núverandi forsætisráðherra. Markmið hennar var að gleðja kjósendur hans í Vestfjarðakjör dæmi. Hefur verksmiðjan síðan verið fyrirmynd annarra gæludýra í ævintýraheimi íslenzkra stjórnmálamanna.

Munur er á Þörungavinnslunni og Kröflu. Jarðhitaverið var reist með því að ana út í óvissuna. Það var hins vegar ekki gert í þanginu. Þar var hafizt handa, þótt vitað væri fyrirfram, að vinnslan gæti ekki borgað sig. Ekki var tekið mark á neinum viðvörunum.

Þörungavinnslan er ekki eins fræg og Krafla, af því að hún er lítil og kostaði ekki eins mikið fé. Hún verð skuldar samt meiri frægð, því að hún var ekki reist að óathuguðu máli eins og Krafla, heldur að vel athuguðu máli, ­ gegn andmælum viðkomandi sérfræðinga.

Þegar vísindamenn fullyrtu, að 24 þangskurðarpramma þyrfti til að anna áætluðum afköstum, lækkaði núverandi forsætisráðherra töluna niður í sex til þess að tölurnar hentuðu betur. Þessir prammar urðu um síðir 11, án þess að dygði og var þá gefizt upp á þeim.

Þeir, sem voru svo ósvífnir að halda fram staðreynd um um afköst og öðrum óþægilegum upplýsingum, voru einfaldlega reknir. Upplýsingar af slíku tagi féllu ekki að draumaheimi þeirrar iðnþróunar, sem núverandi forsætisráðherra barðist ótrauður fyrir á þeim tíma.

Engin vandamál á Reykhólum þurftu að koma neinum á óvart. Spádómar vísindamanna og annarra úrtölumanna rættust. Draumur stjórnmálamannsins varð að martröð. Verksmiðjan tapaði stórfé á hverju ári og hefur lengi verið svo rækilega gjaldþrota, að einsdæmi er.

Af 115 milljón króna skuldum Þörungavinnslunnar er 51 milljón skuld við Iðnþróunarsjóð, sem stofnaður var til að stuðla að iðnþróun í landinu. Þetta er dæmi um, hvernig þróunarfé er hér á landi misnotað í alls konar pólitísk bjargráð og nýtist ekki til þróunar.

Í kjölfar þessa vers hafa ýmis önnur verið undirbúin eða hönnuð, reist að hluta eða fullbyggð. Talað hefur verið um kísilmálm og stál, salt og sykur, og steinullarver hefur verið reist. Í sumu kann að vera nokkuð vit, en annað er reist á hæpnum forsendum.

Þörungavinnslan á Reykhólum er ágætt víti til varnaðar. Hún má gjarna standa sem minnisvarði um, hversu erfitt reynist stjórnmálamönnum í þjóðfélagi ríkis skömmtunar á fjármagni að greina á milli iðnþróunar og pólitískra hagsmuna, einkum kjördæmishagsmuna.

Bezt væri, að minnisvarða þessum fylgdi höggmynd af núverandi forsætisráðherra, sem var hinn eini, sanni höfundur að lexíunni að Reykhólum við Breiðafjörð.

Jónas Kristjánsson

DV