Minnka ber skuldasúpuna.

Greinar

Lundúnafundur leiðtoga efnahagsveldanna sjö á Vesturlöndum varð ekki til að létta af þeirri ógn efnahagskreppu, sem vofir yfir hinum vestræna heimi í kjölfar gjaldþrota margra ríkja þriðja heimsins á næstu tveimur árum vegna óhóflegrar skuldasöfnunar þeirra.

Reagan Bandaríkjaforseti vildi ekki hlusta á þá röksemd allra hinna leiðtoganna sex, að hinn gegndarlausi halli á ríkisbúskap hans hvetti til hárra vaxta í Bandaríkjunum. Hann hugsar um það eitt að ná endurkjöri næsta vetur og er ekki móttækilegur fyrir hagfræði.

Reagan hefur lækkað skatta án þess að ná neinum umtalsverðum sparnaði í ríkisrekstri upp í gatið. Afleiðingin hefur orðið meiri halli á ríkisbúskapnum en menn hafa áður kynnzt. Þessi taprekstur getur ekki gengið endalaust, en getur gengið fram yfir kosningar.

Jafnframt hafa hinir háu vextir í Bandaríkjunum enn hækkað um þrjú prósentustig, það sem af er þessu ári. Þetta hefur svo aftur á móti haft tvennar afleiðingar. Annars vegar hefur evrópskt og annað lánsfé sogazt til Bandaríkjanna og tafið endurlífgun efnahagsþróunar í Evrópu.

Hitt er þó enn alvarlegra, að hvert einasta stig í hækkun bandarískra vaxta eykur skuldabyrði heimsins um fjóra milljarða dollara. Vaxtahækkun þessa tæplega hálfa árs hefur því aukið heildarbyrðina um tólf milljarða dollara. Og það lendir þyngst á herðum þriðja heimsins.

Töfin á endurlífgun efnahagsþróunar í Evrópu og raunar í fleiri iðnríkjum hefur svo aukið vanda þriðja heimsins. Iðnríkin hafa keypt minna af vörum frá þriðja heiminum og á lægra verði. Gjaldeyristekjur þriðja heimsins hafa því verið minni en reiknað hafði verið með.

Skuldir þriðja heimsins hrönnuðust upp, þegar olíudollarar Arabaríkjanna flæddu um heiminn og alþjóðlegu bankarnir kepptust um að lána á tvist og bast. Þá var ekki hugsað nóg um öryggið. Bankastjórar ímynduðu sér, að ríki gætu ekki orðið gjaldþrota, þótt annað sé nú að koma í ljós.

Ekki bætir úr skák, að sumt af lánsfénu fór beint á bankareikninga í Sviss, í margvíslegt sukk og svínarí eða í fáránlegar framkvæmdir. Stórtækastir í þessum efnum hafa verið herforingjar og aðrir þjófar, sem höfðu brotizt til valda og höfðu raunar ekkert umboð frá þjóðinni.

Í Argentínu er því til dæmis nú haldið fram, að hin nýja, lýðræðislega kjörna stjórn geti ekki borið ábyrgð á skuldum, sem fyrri herforingjalýður stofnaði til, sjálfum sér en ekki þjóðinni til framdráttar. Argentína er einmitt eitt þeirra landa, sem nú rambar á barmi gjaldþrots.

Ekki verður betur séð en vit sé í þessari röksemdafærslu. Hvaða rétt hafa bankastjórar til að ætlast til af fátækum þjóðum, að þær endurgreiði fé, sem þessir stjórar lánuðu umboðslausum glæpamönnum? Þeir áttu að vita betur og eiga skilið að glata öllu slíku fá.

Sanngjarnt er, að nokkrir vestrænir bankar verði gjaldþrota vegna fyrirhyggjulausra lána til umboðslausra hershöfðingja, einkum í Suður-Ameríku. Ástæðulaust er að láta banka komast upp með að lána öðrum ríkisstjórnum en þeim, sem hafa eitthvert umboð við komandi þjóða.

Hitt er svo enn mikilvægara, að sem fyrst linni óstjórninni á ríkisfjármálum Bandaríkjanna, svo að vextir megi sem fljótast lækka þar í landi. Á meðan þurfa vesturveldin að framkvæma tillögu Mitterrands Frakklandsforseta um fimmtán milljarða yfirdráttarréttindi handa þriðja heiminum.

Jónas Kristjánsson

DV