Minnkum ójöfnuð

Greinar

Þjóðarsátt hefur verið og er um, að nauðsynlegt sé að hækka lágmarkslaun í landinu. Undanfarin ár hafa kjarasamningar meira eða minna snúizt um þetta. Síðustu kjarasamningar einkenndust af kröfunni um 42.000 króna lágmarkslaun og 36.500 króna niðurstöðunni.

Árangurinn hefur látið á sér standa. Með launaskriði hefur hækkun lágmarkslauna gengið upp allan launastigann og skilið láglaunafólkið eftir í sömu súpu og áður. Enn hefur ekki verið fundin lausn á þessum vanda, sem framkallar verðbólgu í stað kjarajöfnunar.

Erlendis hefur sums staðar, til dæmis í Bandaríkjunum, verið farin sú leið að semja ekki um lágmarkslaun í kjarasamningum aðila vinnumarkaðarins, heldur lögfesta þau á þjóðþinginu sem pólitíska ákvörðun. Nú stendur þar fyrir dyrum ný hækkun lágmarkslauna.

Á þann hátt má líta á, að lágmarkslaun séu orðin hluti af hinu opinbera tryggingakerfi og þá á þann hátt, að löggjafarvaldið skyldar atvinnurekendur til að borga ákveðið lágmark í laun, jafnvel þótt þeir telji vinnuna, sem þeir kaupa, ekki vera þeirra peninga virði.

Margir hagfræðingar eru andvígir þessari aðferð. Þeir segja réttilega, að hún leiði til fækkunar atvinnutækifæra. Ríkið geti að vísu skyldað atvinnurekendur til að borga ákveðin laun, en það geti ekki skyldað þá til að ráða fólk til starfa á hinum lögskipuðu launum.

Samkvæmt þessu eru færri en ella ráðnir til starfa, sem álitin eru ómerkari en sem svarar lágmarkslaunum. Þetta kemur mest niður á ungu fólki, sem er að sækja inn á vinnumarkaðinn, og á konum, sem löngum hafa skipað lægstu þrep launastiga í flestum greinum.

Einnig er þetta talið leiða til, að niður leggist rekstur fyrirtækja, sem byggja afkomu sína á ódýru vinnuafli. Andstæðingar lágmarkslauna segja, að betra sé að hafa prjónastofur, er borgi konum lágt kaup, en hafa alls engar prjónastofur, sem gerir þær atvinnulausar.

Reiknað hefur verið út, að sérhver 10% hækkun lágmarkslauna eyði 200.000 störfum í Bandaríkjunum. Það svarar til 200 starfa hér á landi. Þetta þykir afleitt í löndum, þar sem atvinnuleysi er eitt helzta vandamálið, sem stjórnvöld glíma við. En það þarf ekki að gilda hér.

Við erum svo heppin á Íslandi að búa við langvinna umframatvinnu, sem metin er á nokkur þúsund störf. Það er mismunurinn á lausum störfum og skráðu atvinnuleysi. Er þá að vísu ekki tekið tillit til dulbúins atvinnuleysis í landbúnaði og fleiri atvinnugreinum.

Vel má hugsa sér, að í þjóðfélagi umframatvinnu sé heppilegt að setja lög, sem hvetji til samdráttar og lokunar fyrirtækja í láglaunagreinum á borð við prjónastofur og frystihús, svo að slík atvinna sé ekki lengur eins konar gildra, sem hindri straum í arðbærari störf.

Með talnaleik má hugsa sér, að hækkun íslenzkra lágmarkslauna úr 36.500 krónum í 55.000 krónur sé 50% aukning og muni leiða til 1000 starfa fækkunar. Hagkerfið ætti að þola slíkt, án þess að atvinnuleysi verði meira en fjöldi lausra starfa í þjóðfélaginu.

Ef lögfesting 55.000 króna lágmarkslauna leiddi ekki til launaskriðs, væri hægt að minnka kjarabil undirstéttar og yfirstéttar í landinu úr sjöföldu í fimmfalt. Það er hæfilegt launabil í jafnréttisþjóðfélagi, sem hefur tekið upp flatan tekjuskatt í stað skattþrepa.

Þótt hingað til hafi ekki tekizt að bæta kjör láglaunafólks með slíku handafli, er ekki ástæða til að gefast upp, því að þjóðarvilji vill minni ójöfnuð í tekjum.

Jónas Kristjánsson

DV