Ein stærsta útgerð og fiskvinnsla landsins hefur verið sögð til sveitar í Reykjavík og hver skuttogarinn á fætur öðrum er sleginn á nauðungaruppboði. Þessi dæmi sýna, að óhætt er að þessu sinni að taka mark á kveinstöfum úr sjávarútvegi, þótt oft hafi þar verið hrópað: “Úlfur, úlfur!”
Meginástæða vandræðanna er, að ríkisvaldið hefur breytt núllrekstrarstefnu sjávarútvegs í mínusrekstrarstefnu. Áfram er Þjóðhagsstofnun látin reikna stöðu greinarinnar og tölurnar notaðar sem grundvöllur millifærslna. En nú er ekki lengur reiknað upp í núll, heldur upp undir núll.
Þegar ríkið rekur slíka mínusrekstrarstefnu ár eftir ár, rýrna eignir atvinnugreinarinnar. Það hefur einmitt gerzt í sjávarútvegi síðustu fimm árin. Því er meira að segja haldið fram, að andvirði þrjátíu skuttogara hafi gufað upp í taprekstri þessara fáu ára.
Ríkisvaldið hefur einfalda leið til að stjórna gengi sjávarútvegs, hvort sem stefnt er að núllrekstri eða mínusrekstri. Það gerist með gengisskráningu. Hún er skráð með opinberu handafli, en ekki í neinu samræmi við markaðslögmál. Hún er pólitískt mál.
Ríkisstjórnir nota verðlagningu erlends gjaldeyris til að láta sjávarútveginn leysa pólitísk vandamál á öðrum stöðum í þjóðfélaginu. Fremstur fer þar hinn hefðbundni landbúnaður, sem þarf hinar sjálfvirku hækkanir og er um leið botnlaus hít fjárfestinga.
Þegar búið er að láta landbúnaðinn hafa sitt, þurfa ríkisstjórnir að líta á hag fyrirtækja og fjölskyldna, sem hafa atvinnu af öðru en útflutningi vöru og þjónustu. Það kostar mikið fé að hafa þá hluti í lagi og endar auðvitað með, að ekki má lækka gengið.
Áður fyrr var gengi íslenzku krónunnar oft skráð með töluverðu tilliti til, að sjávarútvegurinn gæti hangið í núllrekstri. Nú er gengið skráð með tilliti til, að ríkisstjórnin lendi ekki í of miklum útistöðum við landbúnað og launafólk.
Þetta getur um tíma mýkt setuna í ráðherrastólum, en hefnir sín fyrr eða síðar. Og núverandi ríkisstjórn fær sennilega makræði sitt í hausinn fyrir næstu kosningar. Hún mun að lokum komast að raun um, að gengisskráning með handafli hefnir sín grimmilega.
Ríkisstjórnir þurfa að venjast þeim hversdagsleika að geta ekki millifært vandamál með krampakenndri fastgengisstefnu. Ef þær neita sér um þetta tæki eru meiri líkur en ella á, að gripið sé til einhverra skynsamlegra ráðstafana, sem ekki koma þjóðarbúinu á höfuðið.
Raunar er enginn aðili fær um að segja, hvert skuli vera gengi raunverulegs, erlends gjaldmiðils, ekki einu sinni Jóhannes Nordal. Eina aðferðin við að finna, hvaða verðmæti eru búin til í útflutningsatvinnuvegunum, er að láta markaðinn ráða, framboð og eftirspurn.
Við erum svo lokuð fyrir gildi markaðarins við ákvörðun peningastærða, að við neitum okkur um að fara að fordæmi annarra þjóða, sem ákveða fiskverð á markaði. Hér er fiskverð ákveðið með opinberu handafli, sem lyftir vondum fiski á kostnað góðs fisks.
Hin heimatilbúna heimska handaflsins gat gengið hér á landi öll árin, þegar ríkisstjórnir sættu sig við að leysa vandamál sín með núllrekstri sjávarútvegs. Blóðmjólkunin hófst ekki fyrir alvöru fyrr en núverandi ríkisstjórn byrjaði að mínusreikna greinina, sér til tímabundinna þæginda.
Jónas Kristjánsson
DV