Mirabelle

Veitingar

Matur er merkilega góður á ljóta tízkustaðnum Mirabelle við Smiðjustíg, eldunartímar nokkurn veginn við hæfi og fæðan ekki skreytt úr hófi fram. Flest er til sóma úr eldhúsinu, frá brauðkollum forrétta yfir í pönnukökur eftirrétta.

Þótt Mirabelle heiti frönsku nafni og hafi Café – Brasserie að undirtitli, er staðurinn ekkert af þessu. Hann státar ekki af matreiðslu frá Elsass, öli og innréttingum úr messing, sem vænta mætti af Brasserie. Kaffið er þynnkulegt, svo að varla er hér Café. Og matreiðslan er ekki frönsk, heldur kalifornísk.

Virðuleg aðkoma er um lítið torg framan við anddyrið. Fyrir innan er stór og dimm setustofa og fyrirferðarmikill stigi upp í stóran, bjartan og hráan veitingasal, sem hefði getað verið á járnbrautarstöð áður en menn fóru að snurfusa slíka staði. Hvítmálað er yfir óheflaðan við í veggjum og beran stein í lofti, en trégólfið er snyrtilega slípað. Áberandi vínrekkur afmarkar opið eldhús.

Innan við einfalt gler eru afar síð gluggatjöld, sem dragast í kös á gólfinu. Við drögum frá og ljóskastarar fyrir utan lýsa beint framan í okkur. Grænar glerplötur eru borðum, tauþurrkur og óbrjótanleg kaffiglös eins og voru í sveitinni í gamla daga. Dósatónlistin var illbærileg síbylja, þar sem tromma og bassi voru í fyrirrúmi.

Litlar og heitar brauðkollur staðarins reyndust vera til fyrirmyndar. Fimm sveppa súpa var mjög fín, með hæfilega ákveðnu bragði, þar sem mintan var fremst meðal jafningja. Olífur og óvenjulega góður hummus-baunagrautur að arabiskum hætti mynduðu einfaldan og skemmtilegan forrétt.

Ofnbakaður steinbeitur, eini fiskrétturinn, var milt eldaður, skemmtilega kryddaður og bragðgóður, borinn fram með vanillusósu, sem hæfði ótrúlega vel, og spaghetti-hlunki, sem hæfði illa. Kryddhjúpaður lambavöðvi rambaði rétt innan marka hæfilegs eldunartíma.

Dísætur sykurbúðingur með sítrónubragði og jarðarberjasósu var kallaður sítrónuterta. Bezti réttur hússins var Tatin-peruterta, þykk og heit pönnukaka með perum. Kaffi var þunnt, meira að segja espresso.

Vínlistinn er skemmtilegur og fjölbreyttur, aðallega frá Toskaníu, Rioja, Chile og Suður-Afríku. Tólf tegundir eru seldar í glasatali á 550 krónur glasið.

Hér er dýrt að borða á kvöldin. Aðalréttir kosta tæpar 2.000 krónur og þríréttað með kaffi rúmlega 3.600 krónur. Í hádeginu er lítið spennandi, en greinilega vinsælt hlaðborð með heitum og köldum réttum á 990 krónur.

Staðartromp er 3.200 króna sælkeramáltíð, sem fól í sér gott villisveppakaffi (!), mjög létta og góða tómattertu með skinku, meyran hunangskjúkling með bökuðum kartöflureimum, afar góða súkkulaðitertu með pistasíum, og kaffi með konfekti.

Jónas Kristjánsson

DV