Mirabelle

Veitingar

Mirabelle við Smiðjustíg skilur eftir ljúfar minningar um fínan ætiþistil og fínni spergil. Við vandað hráefni bætist gamalfrönsk matreiðsla alla leið yfir í profiteroles og crème brûlée. Eftir enn eina kollsteypuna í eignarhaldi reykvískra veitingastaða er Mirabelle komin á gott skrið.

Undirtitill staðarins er Café-Brasserie, þótt hann sé hvorugt. Kaffihús býður ekki þríréttaðan mat á 4.000 krónur, áður en kemur að víni. Og brasserie þarf að hafa eitt af þrennu, matreiðslu frá Alsace, áherzlu á bjór eða messing í innréttingum. Ekkert af þessu er á Mirabelle.

Evrópska andrúmsloftið byrjar framan við vandfundið húsið, þar sem lítið miðborgartorg rúmar bæði tré og bílastæði. Stemmningin sígur síðan, þegar gengið er hjá berskjaldaðri fordrykkjastofu upp ljótan og frekjulegan stiga, sem endar á miðju gólfi í kuldalegu lagerplássi.

Þetta er opinn geimur í ljósum litum, með óhefluðum viði í útveggjum og beru steinlofti, einföldu gleri í gluggum og vel slípuðu trégólfi. Gluggatjöldin eru svo síð, að þau dragast í gólfinu. Yfirstærðar vínrekkur stúkar opið eldhús og yfirhlaðið fatahengi í salarmiðju sídregur að sér augað.

Brúnin lyftist aftur, þegar setzt er að borðum við hvíta dúka og munnþurrkur, sem eru úr taui, jafnvel í hádeginu. Gróft og gott brauð kemur á borð, stundum með sojakornum og stundum með olífubitum. Smörið er tvenns konar, venjulegt og sterkkryddað með hvítlauk og papriku.

Vatn er drukkið úr óbrjótanlegum, íslenzkum þjóðernis-kaffiglösum, sem komin eru í tízku í veitingabransanum samkvæmt formúlunni, að tízkan þurfi að vera svo ljót, að auðvelt sé að skipta um hana tvisvar á ári. Þessi ruddalegi glasastíll er líka á Einari Ben.

Góð og hefðbundin var reykt laxakæfa með steinselju og tómati. Enn betri voru gufusoðinn spergill og ætiþistill með anísblandaðri smjörsósu. og stökkum kúrbít. Betri spergil hef ég ekki fengið hér á jaðri freðmýrabeltisins.

Fiskisúpa var fremur góð, en fiskhlassið í henni miðri var fremur þurrt, þorskur og lax. Tómatsúpa var bragðmikil og bragðgóð, full af grænmeti.

Þorskasteik var nákvæmlega rétt grilluð, borin fram á sveppum í soðnu rauðvíni. Piparristaður steinbítur var örlítið meira eldaður, en samt góður, borinn fram með pönnusteiktu grænmeti og daufri hvítlaukssósu.

Fínar voru steiktar andabringur með ætiþistli, rjómasoðnu spínati, grilluðum kartöfluþráðum og appelsínusósu, sem skilaði sér hæfilega í gegn í bragði.

Crème brûlée var léttur búðingur með nettri karamelluskán, afar góður eftirréttur. Profiteroles reyndust hins vegar vera þungar og kaldar vatnsdeigsbollur með ís og heitri súkkulaðisósu. Kaffi var gott.

Að lokum má súpa hveljur yfir reikningi, sem nemur 4.000 krónum á mann. Hagkvæmara er að koma í hádeginu, þegar tvíréttað kostar ekki nema 1.270 krónur á mann, þótt ekkert sé gefið eftir í matreiðslu, aðbúnaði og afbragðs þjónustu.

Jónas Kristjánsson

DV