Misgerðarmenn

Greinar

Ábyrgð manna á gerðum sínum er ekki minni en annarra, þótt þeir hafi af þeim meira samvizkubit en hinir. Alþingismennirnir, sem studdu nýju lögin um lánasjóð námsmanna bera allir á þeim jafna ábyrgð, Alþýðuflokks- jafnt og Sjálfstæðisflokksþingmenn.

Sama er að segja um einstaka þingmenn Sjálfstæðisflokksins, sem sagðir eru hafa stutt lögin með meiri semingi en hinir. Sérhver þeirra hafði eitt atkvæði og það eitt gildir, en ekki yfirlýsingar sumra þeirra þess efnis, að þeir beri á þessu minni ábyrgð en aðrir.

Frestun á greiðslu námslána í ársþriðjung er ekki tilraun til að koma á meiri sjálfsaga námsmanna, heldur er hún frestun skuldbindinga ríkisins fram yfir áramót, svo að þær komi ekki fram á þessu fjárlagaári. Þetta er alsiða í illa reknum gjaldþrotsfyrirtækjum.

Ríkisstjórnin er tæpt stödd í fjármálum og lítur á það sem himnasendingu að fresta greiðslu nokkur hundruð milljóna króna fram á næsta ár. Þetta linar peningalegar þjáningar hennar einu sinni, svo sem hæfir ríkisstjórn, sem er svo skammsýn, að telja má hana einnota.

Frestun á greiðslu námslána felur ekki í sér, að námsmenn þurfi aðeins einu sinni að slá bankalán í hálfan vetur, heldur verða þeir alla sína námstíð að bera slík lán á bakinu, því að samkvæmt lögunum tekur ein frestun námslána við af annarri, unz námi þeirra er lokið.

Enn einn misskilningurinn í máli þessu er, að fyrirgreiðsla hins opinbera hafi fyrir setningu nýju laganna verið meiri en tíðkast í öðrum löndum. Menn gleyma því þá, að hér á landi eru nánast engir námsstyrkir, sem eru töluverðir hjá flestum nágrannaþjóðum okkar.

Vel er við hæfi, að þeir þingmenn, sem á sínum tíma nutu ódýrra námslána, sem brunnu til agna í verðbólgu, skuli nú taka höndum saman um að sætta sig ekki við, að námsmenn borgi sín lán til baka ekki bara í jafngildum verðmætum, heldur raunvexti í ofanálag.

Af framansögðu má í fyrsta lagi ráða, að Sturla Böðvarsson og Össur Skarphéðinsson bera ekki minni ábyrgð en Davíð Oddsson á nýju lögunum. Í öðru lagi, að markmið laganna er fyrst og fremst að lina peningaskort ríkisstjórnarinnar með einnota bókhaldsaðgerð.

Í þriðja lagi, að ríkisstjórnarmeirihlutinn færði vandann til hliðar með því að gera hann að samfelldum vanda bankanna, ekki bara á einu hausti, heldur um aldur og ævi. Og í fjórða lagi, að ekki er rétt, að gamla kerfið hafi verið hliðhollara námsmönnum en útlend kerfi eru.

Gamla kerfið var gott eins og það var og ekki meiri lúxus fyrir þjóðfélagið en kerfi annarra þjóða. Skaðlegt er að bæta raunvöxtum ofan á verðtryggingu lánanna og skaðlegt er að fresta útborgun til loka námsanna.

Afleiðing nýju laganna verður fyrst og fremst, að stéttaskipting vex hraðar en áður. Ráðherrasynir munu fara í dýra skóla í útlöndum, en börn einstæðra munu ekki treysta sér til langskólanáms. Nýju lögin eru samin í forherðingu nýríkrar yfirstéttar í landinu.

Um leið eru nýju námslánalögin liður í tilraunum stjórnvalda til að vernda velferðarkerfi gæludýra í atvinnulífinu með því að draga úr velferðarkerfi almennings. Á ýmsan slíkan hátt er fjármagn flutt í landbúnaðarhítina, sem er þessari ríkisstjórn mjög kær.

Að loknu illu verki á Alþingi er ekki annað eftir en að óska þess, að stjórnarflokkarnir og þingmenn þeirra muni fá verkalaun við hæfi, þegar tíma líða fram.

Jónas Kristjánsson

DV