Mislæg gatnamót

Greinar

Til bóta eru flestar breytingar í tillögu að endurskoðuðu aðalskipulagi Reykjavíkur. Tekið hefur verið tillit til, að þróunin hefur eins og eðlilegt er að ýmsu leyti orðið önnur, en ráð var fyrir gert, þegar núgildandi aðalskipulag var samþykkt af borgarstjórn á sínum tíma.

Eitt atriði breytist þó til hins verra samkvæmt nýju tillögunni. Samkvæmt henni verður hætt við mislæg gatnamót á mótum Miklubrautar og Kringlumýrarbrautar. Þetta er og verður eitt mesta umferðarhorn borgarinnar og þar þurfa margir ökumenn að skipta um götu.

Eðlilegt er að stefna að því, að helztu umferðarásar höfuðborgarsvæðisins hafi mislæg gatnamót, einkum Miklabraut og Kringlumýrarbraut. Sérhagsmunir í Kringlunni mega ekki hindra borgina í að gera umferðina sem greiðasta, ódýrasta og öruggasta.

Ef brú á þessum stað er talin spilla víðsýni, er unnt að grafa aðra götuna undir hina, svo sem fyrirhugað er að gera við vesturenda Miklubrautar, þar sem hún mætir Snorrabraut og Rauðárárstíg. Auk þess eru ýmis dæmi um, að brýr í Reykjavík falla vel að landinu.

Í tillögunni er fallið frá fyrri hugmyndum um hraðbraut út fyrir Öskjuhlíð og inn Fossvogsdal, enda hefur komið í ljós, að lítil þörf er fyrir þessa götu, sem þar að auki hefði spillt friðar- og útivistarsvæðinu í dalnum. Þessi breyting er til bóta frá fyrra aðalskipulagi.

Þessari breytingu fylgir, að væntanlega verður hætt við gallaðar hugmyndir fyrra aðalskipulags um nýja flugstöð innanlandsflugs í Nauthólsvík og henni í staðinn valinn miðlægari staður, sem er nær stofnunum miðborgarinnar og núverandi aðalgatnakerfi hennar.

Hins vegar er helzti galli fyrirhugaðs aðalskipulags hinn sami og eldra aðalskipulags, að ekki er tekið af skarið um, að Reykjavíkurflugvöllur verði lagður niður. Meira mun kosta að endurgera þennan flugvöll en að búa til nýjan eða flytja flugið á Keflavíkurvöll.

Núverandi meirihluti borgarstjórnar hefur sætt gagnrýni fyrrverandi meirihluta borgarstjórnar fyrir að falla ekki frá fyrra aðalskipulagi fyrrverandi meirihluta um athafnasvæði í Geldinganesi. Þessi gagnrýni er síðbúin og málafátæk sjálfsgagnrýni fyrrverandi meirihluta.

Laukrétt var og er enn, að Geldinganes er afar heppilegt land fyrir íbúðabyggð, ef þar væri eingöngu íbúðabyggð, en ekki blönduð byggð, svo sem gert var ráð fyrir í eldra aðalskipulagi. Hins vegar þarf borgin nauðsynlega að geta útvegað fleiri athafnalóðir á hafnarsvæðinu.

Framsýnar eru hugmyndir aðalskipulagsins um samfellt kerfi brúa yfir Kleppsvík, Eiðsvík, Leiruvog og Kollafjörð. Þetta færir umferð Vesturlandsvegar frá íbúðahverfum Mosfellsbæjar og styttir leiðina upp á Kjalarnes, þar sem rædd er sameining við Reykjavík.

Tillagan að nýju aðalskipulagi staðfestir, að litlir möguleikar eru á að þenja borgina inn í landið, svo sem upp í Hólmsheiði. Það þýðir, að ónotað byggingarland í borginni verður að mestu á þrotum, þegar byggt hefur verið á Korpúlfsstaðalandi og í Geldinganesi.

Þegar kemur fram yfir aldamót, verða jaðarsveitarfélög höfuðborgarsvæðisins að taka við útþensluhlutverki borgarinnar. Það verða Hafnarfjörður, Mosfellssveit og Kjalarnes, sem þá verða að geta útvegað lóðir því fólki og þeim fyrirtækjum, sem vilja byggja á svæðinu.

Í stórum dráttum er vel staðið að þessu aðalskipulagi eins og hinum fyrri, enda byggist það á þeirri skynsamlegu og farsælu reglu að breyta sem allra fæstu.

Jónas Kristjánsson

DV