Mislæg Miklabraut

Greinar

Miklabrautin í Reykjavík er hættulegasta og dýrasta gata landsins, af því að þar er mest umferð á landinu og af því að hún hefur orðið útundan hjá stjórnvöldum landsins, sem hafa óbeit á Reykjavík og neita algerlega að úthluta vegafé í samræmi við umferðarþunga.

Slysin hrannast upp á margra akreina gatnamótum, sem ekki eru mislæg. Tryggingafélögin hafa reiknað kostnaðinn af gamaldags gatnamótum og komizt að raun um, að hann skiptir tugum milljóna króna á hverju ári á hverjum einustu gatnamótum Miklubrautar.

Þetta eru fimm gatnamót, fimm af átta verstu gatnamótum landsins, og kosta samtals 300 milljónir króna á ári. Tjónakostnaður einstaklinga, þjóðfélags og tryggingafélaga lækkaði umtalsvert, ef öll þessi gatnamót yrðu mislæg. Það væri hagkvæmasta nýting vegafjárins.

Tjónatölur sýna ekki allan sannleikann. Að baki eru oft skaðar, sem aldrei verða bættir, örorka og andlát. Því hvílir þung ábyrgð á herðum stjórnvalda landsins, sem líta á Reykvíkinga sem annars flokks borgara í landinu og vilja verja vegafé til að bora sem flest göt í fjöll.

Mislæg gatnamót eru ekki aðeins bezta vörnin gegn slysum í umferðinni. Þau hindra þar að auki mengunina, sem hlýzt af því, að menn þurfa sífellt að stöðva bíla sína og taka þá af stað aftur. Kyrrstæðir bílar og bílar, sem eru að fara af stað, eru miklir mengunarvaldar.

Þessi töf í umferðinni sóar ennfremur miklu eldsneyti, svo sem fram kemur í útreikningum, er sýna, að gerð mislægra gatnamóta á fjölförnustu stöðunum er þjóðhagslega hagkvæmasti kostur í vegagerð á landinu. Eftir þessum útreikningum er síðan alls ekki farið.

Samgönguráðuneytinu, Vegagerðinni og Alþingi ber að verja fjármunum vegagerðarinnar í samræmi við heildarhagsmuni þjóðarinnar. Ef þessir aðilar landsstjórnarinnar gegndu skyldu sinni, væru öll gatnamót Miklubrautar þegar komin á verkefnaskrá mislægra gatnamóta.

Það þýðir, að ekki nægir að opna ný gatnamót á Miklubraut á fimm ára fresti. Þá tæki aldarfjórðung að koma upp mislægum gatnamótum á Miklubraut allri. Slíkur hægagangur dugar auðvitað alls ekki. Opna þarf ný gatnamót á Miklubraut annað hvert ár að minnsta kosti.

Dæmigert fyrir fáránleika íslenzkrar vegagerðar er, að fjölförnustu og hættulegustu gatnamót landsins, gatnamót Miklubrautar og Kringlumýrarbrautar, skuli ekki enn vera komin á vegaáætlun. Það er ekki heil brú í hugarfari, sem felur í sér, að göng í fjöllum hafi forgang.

Tvenn mislæg gatnamót við Kringlumýrarbraut og við Snorrabraut gera kleift að loka gatnamótunum við Lönguhlíð. Síðan þarf að reisa önnur tvenn mislæg gatnamót við Háaleitisbraut og síðast en ekki sízt við Grensásveg, þar sem er næstversta umferðarhorn landsins.

Með slíkum aðgerðum næðist viðstöðulaus akstur á Hringbraut og Miklubraut frá Vatnsmýri upp að mótum Vesturlandsvegar og Suðurlandsvegar, þar sem einnig vantar mislæg gatnamót. Verkefnin eru mörg og brýn og öll eru þau á toppi þjóðhagslegrar hagkvæmni.

Vegakerfi er mikilvægur þáttur í innviðum þjóðfélags. Því greiðari sem umferðin er, þeim mun fljótari verða allir flutningar og þeim mun hagkvæmari verður rekstur fjölskyldna, fyrirtækja og þjóðfélagsins í heild. Vegafénu ber því að verja á sem allra hagkvæmasta hátt.

Það ætti að vera forgangsverk íslenzkrar vegagerðar að koma upp mislægum gatnamótum á öllum umferðarási Miklubrautar á þessum fyrsta áratug aldarinnar.

Jónas Kristjánsson

DV