Mismunað í skattheimtu

Greinar

Senn fer að koma að því, að menn skrái, hvað gjalda beri keisaranum. Ríkið heimtir mikið fé af fólki og gefur um leið færi á ýmsum undanþágum. Mikils er um vert að átta sig á, hvar tækifæri eru til lækkunar eigin skatta og að hafa aðstöðu til að nýta sér það.

Hlutur hinna ríku hefur farið batnandi í hlutfalli við aðra. Tekjur af vinnu þola hærri álagningu en tekjur af peningum og pappírum. Eignir í steypu þola hærri álagningu en eignir í peningum og pappírum. Ójafnvægi milli tekjuleiða og sparnaðarleiða hefur aukizt.

Skattkerfið bætir stöðu þeirra, sem eiga miklar eignir umfram íbúðir sínar, í samanburði við meðalfólk, sem á ekki miklar eignir umfram íbúðirnar. Af eigin húsnæði greiða menn bæði eignaskatt og fasteignaskatt. Kerfið refsar mönnum þannig fyrir að eiga steypu.

Þróunin ætti að vera í hina áttina, til aukins jafnræðis milli sparnaðarforma. Almenn ættu skattar að vera með sem minnstum og helzt engum undantekningum, því að þannig verður skattprósentan lægst. Á því græða allir, sem hafa lítil færi á skattalegum útúrdúrum.

Þjóðfélagið væri í senn réttlátara og arðsamara, ef hér væri 18% flatur virðisaukaskattur, 25% flatur tekjuskattur og 1% flatur eignaskattur. Þetta væri hægt, ef undantekningar væru afnumdar. Ríkið fengi raunar meiri tekjur en áður, því að undanbrögð mundu minnka.

Einnig væri gagnlegt, ef horfið yrði frá því að nota skatta sem tæki til tekjujöfnunar í þjóðfélaginu og þeir einskorðaðir við tekjuöflunina. Tekjujöfnun á að reka á annan hátt, einkum með greiðslum á vegum Tryggingastofnunar til skilgreindra velferðarhópa.

Tekjujöfnun ríkisins á að felast í ellilaunum, örorkulaunum, barnalaunum og atvinnuleysislaunum. Þjóðfélagið á að ákveða, hver eiga vera kjör þeirra, sem ekki hafa fullar eigin tekjur, og reka þá kjarajöfnun í sérstöku launakerfi, en ekki rugla með því skattkerfið.

Þegar hér er talað um flata skatta, er átt við eina prósentutölu í hverjum skatti, án tillits til upphæðar og án tillits til uppruna. Þannig ættu tekjur af peningum að skattleggjast eins og tekjur af vinnu og eign í pappírum að skattleggjast eins og eign í steypu.

Ennfremur er hér átt við, að ekki sé sett gólf á skattstofna, heldur byrji skattar að telja frá fyrstu krónu. Þannig borgi menn sama tekjuskatt af öllum sínum tekjum og öllum tegundum tekna, en njóti á móti mun lægri skattprósentu en menn þurfa nú að þola.

Flestir mundu vilja borga 18% virðisaukaskatt í stað 24,5%, 25% tekjuskatt í stað 40% og 1% eignaskatt í stað 1,45%, þótt á móti komi afnám undantekninga, sem hér hefur verið rakið. Kerfið yrði einfaldara og réttlátara, arðsamara og gegnsærra, venjulegu fólki til góðs.

Skattar eru ekki vinsælir. Nauðsynlegt er, að fólk finni, að allir séu jafnir fyrir þeim. Því hlutlausari sem skattar eru, þeim mun minni óbeit hafa menn á þeim. Sérstaklega er mikilvægt, að fólk finni, að ekki sé verið að hygla sérhópum á kostnað alls almennings.

Öll frávik frá flötum og hlutlausum skattprósentum eru um leið frávik frá eðlilegum markaðsbúskap hagkerfisins. Þau fela í sér tilraun stjórnvalda til að deila og drottna, umbuna sumum á kostnað annarra. Þau eru afurð stjórnlyndis, sem hagfræði nútímans hafnar.

Fyrir löngu er orðið úrelt, að ríkisvaldið sé að reyna að stýra þróun með hvatningu hér og hindrun þar. Bezt er að láta markaðsöflin sjálf um að velja sér farvegi.

Jónas Kristjánsson

DV