Misráðnar Kínaferðir

Greinar

Vestrænar ríkisstjórnir geta aðeins mótmælt nýafstöðnum kjarnorkutilraunum Kínverja með hangandi hendi, af því að Frakkar ætla að stunda slíkar tilraunir í næsta mánuði. Það er illfært að siða ríkisstjórnir heimsins, þegar vestræn ríkisstjórn brýtur alþjóðasamninga.

Kjarnorkutilraunir Frakka og Kínverja eru forkastanlegar. Þær stríða gegn alþjóðasamningum og draga úr líkum á, að siðlitlar ríkisstjórnir fari eftir alþjóðasamningum. Auk þess hafa kjarnorkutilraunir táknræna mynd hroka og fyrirlitningar stjórnvalda á umheiminum.

Kínverska stjórnin hefur samkvæmt aldagamalli hefð nánast enga tilfinningu fyrir því, að skoðanir í umheiminum skipti máli fyrir Kína. Kínversku ríkisstjórninni finnst útlendingar vera til þess eins nýtir að þéna undir Kína og til að hafa af þeim fjárfestingarfé.

Aukin hernaðarumsvif Kínverja valda áhyggjum í nágrannaríkjunum um þessar mundir. Landgöngulið frá Kína hefur hertekið umdeilda eyju, sem er miklu nær Filippseyjum og Víetnam. Og kínverskum eldflaugum er skotið í átt til Taívan í svokölluðu æfingaskyni.

Vaxandi rembings hefur gætt í hótunum Kínastjórnar um innrás í Taívan, sem hún telur vera hluta af Kína. Ennfremur bendir afstaða hennar til þróunar mála í Hong Kong til þess, að hún muni ekki virða gerðan samning, þegar hún á að taka þar við völdum eftir tvö ár.

Misráðið var að ákveða að halda kvennaráðstefnu Sameinuðu þjóðanna í Kína. Jafnréttisráðstefnur á alls ekki að halda í ríkjum, sem virða ekki jafnrétti frekar en önnur mannréttindi. Og Kína er orðið forusturíki þeirra afla heims, sem hafna vestrænni siðmenningu.

Kínverska stjórnin sýndi fyrirlitningu sína á útlendum konum með því að ákveða skyndilega að færa hinn frjálsari hluta hennar frá Peking, þar sem ríkisstjórnahluti hennar verður. Þá höfðu vestræn ríki tækifæri til að neita að mæta á ráðstefnuna, en notuðu það ekki.

Kínverska stjórnin flutti órólega hlutann frá Peking til að hann truflaði ekki hinn himneska frið á aðaltorgi borgarinnar, þar sem hún stóð á sínum tíma fyrir eftirminnilegu blóðbaði. Hún flutti þennan hluta í einangrun upp í sveit, þar sem minni hætta væri á uppistandi.

Töluverð umræða var um þennan flutning hér á landi. Þá komu fram óskir um, að íslenzku samtökin hættu við að senda konur á ráðstefnuna, en þær óskir náðu því miður ekki fram að ganga. Mun því verða gerð snautleg ferð til Kína á þessa ráðstefnu í næsta mánuði.

Íslenzka ráðstefnufólkið afsakar sig með því að segjast ætla að nota tækifærið til að koma á framfæri gagnrýni á stöðu jafnréttismála í Kína. Það er betra en ekki neitt. Slík gagnrýni verður þó veikburða og ekki traustvekjandi, af því að málsástæður gefa meira tilefni.

Íslenzk stjórnvöld hafa undanfarið tekið upp þann ósið að nudda sér upp við kínversk stjórnvöld. Núverandi ríkisstjórn Íslands og hin næsta á undan hafa stundað fjölmennar og gagnkvæmar heimsóknir ráðamanna með gamalkunnu froðusnakki um frið og vináttu.

Þar á ofan hafa íslenzkir ráðamenn vakið vonir um stóran markað í Kína fyrir íslenzkar vörur og þjónustu. Með stuðningi stjórnmálamanna var sett upp íslenzk lakkrísverksmiðja í Kína og fór hún umsvifalaust á hausinn. Þannig mun fara um allt íslenzkt fé í Kína.

Kína er fyrirferðarmesta vandræðaríki heimsins um þessar mundir. Skynsamlegt er fyrir ríki, samtök, fyrirtæki og einstaklinga að forðast Kína sem mest.

Jónas Kristjánsson

DV