Missti andlit og kjark

Greinar

Herinn í Júgóslavíu hefur orðið fyrir áfalli; og ráðamenn Vesturlanda átta sig betur en áður á, að sundrung Júgóslavíu verður ekki hindruð. Þróun tveggja síðustu vikna hefur að þessu leyti verið hagstæð íbúum Júgóslavíu, þrátt fyrir átök og mannfórnir í ríkinu.

Fyrir tveimur vikum var útlitið mun dapurlegra. Þá voru ráðamenn Vesturlanda yfirleitt eindregið andvígir sjálfstæðishreyfingu Slóvena og Króata. Bandaríkin höfðu forustu í því viðhorfi. Þetta endurspeglaðist rækilega í vestrænum fjölmiðlum, flestum öðrum en DV.

Fyrir tveimur vikum birtust hér í blaðinu leiðarar, þar sem því var haldið fram, að stuðningur Vesturlanda við stjórn Júgóslavíu væri byggður á röngum forsendum og mundi ekki ná árangri. Júglóslavía mundi klofna í þjóðríki, og það væri í rauninni hið bezta mál.

Andstaða Bandaríkjanna við sundrungu Júgóslavíu byggðist á þeirri trúarkreddu úr bandarískum reynsluheimi, að sambandsríki séu í eðli sínu góð, en þjóðríki Evrópu séu frumstæðari útgáfa af lýðræðisríkjum. Því hafa bandarísk stjórnvöld dálæti á fjölþjóðaríkjum.

James Baker, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, gerði hlé á ráfi sínu um Miðausturlönd, þar sem Ísraelsmenn hafa haft hann að fífli, og fór til Belgrad að stappa stálinu í sambandsmenn. Þessi illræmda ferð bar eins lítinn árangur og ferðir hans um Miðausturlönd.

Hér í blaðinu var hins vegar ekki bent nógu skýrt á, að stjórnvöld sumra Evrópuríkja mundu leggjast gegn sjálfstæðishreyfingum Slóvena og Króata, svo að eigin þjóðarbrot færu ekki að dæmi þessara þjóða. Þessi stjórnvöld vildu ekki flytja inn vandræði frá Júgóslavíu.

Spánverjar óttuðust áhrifin á Katalóna, Valensa, Galísa og Baska. Frakkar óttuðust áhrifin á Korsíka. Tékkar óttuðust áhrifin á Slóvaka og Sovétar óttuðust áhrifin á langa röð þjóða og þjóðarbrota innan landamæranna. Þarna voru hreinir eiginhagsmunir í húfi.

Það hefur líka komið í ljós á tveimur vikum, að stjórnvöld Spánar, Frakklands, Tékkóslóvakíu og Sovétríkjanna hafa lagt sig fram um að varðveita upphaflega andstöðu Vestur- og Austur-Evrópu við sjálfstæði Slóvena og Króata, en hafa orðið að láta í minni pokann.

Fyrir tveim vikum var hlegið, ef því var haldið fram, að viðurkenna bæri sjálfstæði Slóveníu og Króatíu, enda var slíku ekki haldið fram, nema af sérvitringum eins og á DV. Tveim vikum síðar eru vestræn stjórnvöld farin að ræða í alvöru um slíka viðurkenningu.

Hér í leiðurum DV var fyrir tveim vikum haldið fram, að það yrði Íslendingum bæði til sóma og gæfu að viðurkenna sjálfstæði Slóveníu og Króatíu, ef um það yrði beðið. Þá var slíkt talið vera fífldirfska, en núna þætti það ekki vera nema eðlilegt og sjálfsagt.

Það var sambandsherinn í Júgóslavíu, sem kom til hjálpar með því að beita ofbeldi. Frumhlaup hans sýndi fram á tvennt. Í fyrsta lagi ættu Vesturlönd ekki að styðja gamla harðlínukomma í Júgóslavíu. Í öðru lagi mundi hernum ekki takast að vinna borgarastríð.

Í fyrstu átökunum reyndust Slóvenar hafa undirtökin, enda gerðust menn unnvörpum liðhlaupar í hernum. Mæður hermanna gerðu hróp að harðlínukommum. Ráðamenn Vesturlanda vöknuðu upp af fyrra siðleysi, er fjölmiðlar fóru að flykkjast inn á sömu línu og DV.

Vestrænir ráðamenn hafa færzt nær almenningsálitinu. Og sambandsherinn, sem missti andlitið í Slóveníu í síðustu viku, er nú líka búinn að missa kjarkinn.

Jónas Kristjánsson

DV