Missti stjórn á sér

Greinar

Leiðinlegt er, hve illa sumir þingmenn missa stjórn á sér í ræðustól. Það er eins og þeir hrífist svo af eigin málflutningi, að þeir missa fótfestu í efnislegum rökum og fara svo langt út fyrir staðreyndir að þeir byrja að dreifa vömmum og skömmum í allar áttir.

Þeir eru að því leyti eins og ríkisbankar, að þeir bera enga ábyrgð. Bankarnir bera í skjóli ríkissjóðs enga ábyrgð á gerðum sínum. Og þingmenn bera í skjóli friðhelginnar á Alþingi enga ábyrgð á orðum sínum. Þeir geta rægt og rifizt án þess að þurfa að standa við það fyrir dómi.

Illræmt var, þegar þetta kom fyrir Ólaf Þ. Þórðarson á síðasta þingi. Farið var fram á, að hann endurtæki orð sín utan þings, svo að hægt væri að höfða meiðyrðamál gegn honum. Það þorði hann ekki, svo að þolendur fengu enga formlega leiðréttingu mála sinna.

Í gær kom þetta fyrir Ólaf R. Grímsson í ræðustól á Alþingi. Hann flutti þar langa ræðu, sem hann hreifst svo af, að hann byrjaði að hreyta ókvæðisorðum í allar áttir. Meðal annars veittist hann að DV, útgáfufélagi þess, Frjálsri fjölmiðlun, og útgáfurstjórum þess.

Ólafur laug því, að DV eða Frjáls fjölmiðlun hefði “notið sérstakra vildarkjara hjá Hafskipum” og verið notað “til þess að mjólka áfram lánin úr þjóðbankanum” “yfir í nýja húsið hjá DV hérna uppi í bæ”. Þessi stóru orð þarf þingmaðurinn þinghelginnar vegna ekki að standa við.

Staðreyndin er hins vegar sú, að DV eða Frjáls fjölmiðlun eiga ekki krónu í Hafskip og hafa aldrei átt, né heldur á Hafskip krónu í DV eða Frjálsri fjölmiðlun og hefur aldrei átt. Á þann hátt geta engir fjármunir færzt á milli fyrirtækjanna og hafa aldrei gert.

Staðreyndin er ennfremur sú, að DV eða Frjáls fjölmiðlun hafa ekki staðið í neinum umtalsverðum viðskiptum við Hafskip. Pappírinn í blaðið er ekki fluttur inn með Hafskip og hefur aldrei verið. Hann hefur verið og er fluttur inn með öðru skipafélagi, Eimskip.

Þannig er hvorki um neina eignaraðild að ræða, né nein viðskipti, sem máli skipta. Húseign DV er byggð á mörgum árum fyrir eigið aflafé fyrirtækisins án nokkurrar aðstoðar Hafskips og raunar án nokkurrar umtalsverðrar aðstoðar banka.

Til frekari áréttingar þess, að DV og Frjáls fjölmiðlun eiga enga aðild að máli því, sem alþingismaðurinn fjallaði um, má nefna, að þau eiga ekki viðskipti við banka þann, sem þingmaðurinn kallar þjóðbankann, Útvegsbankann. Viðskiptabanki okkar er Landsbankinn.

DV hefur verið byggt upp að húsnæði og tækjum án þess að gengið hafi verið í vasa ríkissjóðs og skattborgaranna, hvorki beint né gegnum bakdyrnar. Hið sama verður ekki sagt um blað alþingismannsins, Þjóðviljann, sem hefur stutt ógeðfelldan málfutning hans í máli þessu. Það lifir á ríkisstyrkjum.

Leiðinlegt er, að þingmaður skuli vera í slíkum vandkvæðum við að vekja á sér þá athygli, sem hann telur við hæfi, að hann skuli grípa til óyndisúrræða af þessu tagi. Raunar verður það ekki skýrt með öðrum hætti en hann hafi misst stjórn á sér í ræðustól.

Þótt þingmenn beri ekki fyrir dómstólum neina ábyrgð á orðum sínum í ræðustól á Alþingi, er æskilegt að þeir forðist upphlaup af þessu tagi, sem eiga verulegan þátt í að draga úr áliti fólks á hinni gamalgrónu stofnun.

Jónas Kristjánsson

DV