Steinbítur dagsins var næstum því eins góður í hádeginu á Skólabrú og á beztu stöðum borgarinnar. En því miður töluvert dýrari, 3500 krónur. Meðlætið dró fiskinn líka niður: Dauf karrísósa, dauf hrísgrjón, ofsteikt grænmeti og smávegis af blaðsalati. Kræklingur í súpu var lakari, 3200 krónur, líklega of lengi í pottinum. Espresso-kaffi var lapþunnt. Þjónusta í góðu lagi. Mér er sagt, að húsaleiga sé svo dýr hér bakvið dómkirkjuna, að veitingatekjur fari að mestu í hana. Kostur Skólabrúar er, að hún er í fögru húsi, sem kennt er við Kristján Sveinsson augnlækni, á einu allra bezta horni borgarkvosarinnar.