Modernus er íslenzka vefsíðumælingin, mælir notendur, innlit og flettingar, notuð af fyrirtækjum, sem hafa ráð á því. Stóru fjölmiðlarnir kynna einkum flettingar og hafa gert þær að staðli, sem flestir nota. Sá galli er á, að skrautlegar síður með ljósmyndum, teikningum og auglýsingum mæla fleiri en eitt innlit eða eina flettingu í hverri síðu. Allt upp í tíu innlit eða flettingar á síðu. Þetta er svo sem í lagi, þegar stórir og skrautlegir miðlar á netinu eru bornir saman. En virkar of stórt í samanburði við einyrkja, sem eru bara með texta á sinni heimasíðu og ekkert skraut.