Mjög nærri lagi.

Greinar

Flest bendir til, að skoðanakönnun Dagblaðsins um fylgi forsetaframbjóðenda lýsi nokkuð vel stöðunni, eins og hún var um síðustu helgi. Nokkur rök má leiða að þessari skoðun.

Í fyrsta lagi var gott samræmi milli þessarar könnunar og fyrri könnunar Dagblaðsins. Í öðru lagi var gott samræmi milli hennar og könnunar Vísis á sama tíma. Í þriðja lagi var gott samræmi milli hennar og álits manna, sem fylgjast vel með almenningsálitinu.

Í fjórða lagi er þegar komin mjög góð reynsla af skoðanakönnunum Dagblaðsins. Síðustu kannanir blaðsins fyrir kosningar hafa jafnan spáð ótrúlega nákvæmlega um úrslitin. Í hvert einasta sinn hefur Dagblaðið verið nær réttu en Vísir.

Könnun Dagblaðsins sýnir, að Guðlaugur Þorvaldsson og Vigdís Finnbogadóttir hafa mikla og tiltölulega jafna forustu. Hún sýnir líka, að Albert Guðmundsson og Pétur Thorsteinsson hafa sótt í sig veðrið.

Eins er athyglisvert, að nærri 30% kjósenda bíða enn átekta og hafa ekki gert upp hug sinn. Þessir kjósendur geta haft áhrif á stöðuna, ef þeir raðast öðru vísi á frambjóðendur en þeir, sem þegar hafa ákveðið sig.

Hópur hinna óákveðnu hefur meira að segja stækkað lítillega frá fyrri könnun Dagblaðsins. Það gefur vísbendingu um, að mikill fjöldi kjósenda muni ekki festa sig fyrr en mjög nálægt kosningunum sjálfum.

Tölur Dagblaðsins eru mjög líkar tölum Vísis. Að meðaltali munar innan við tvö prósentustig á tölum hvers frambjóðanda. Það er minni munur en áður hefur tíðkazt og bendir til, að báðar kannanir séu nærri lagi.

Metingur um aðferðafræði hefur aftur skotið upp kollinum. Vísir teflir fram frambjóðendafulltrúum, sem lýsa ánægju með stærð úrtaks blaðsins, tölvuvinnslu og talnaflóð. Þar er gamalkunnugur misskilningur á ferð.

Talnarunur úr tölvum eru nákvæmlega jafn vitlausar og tölurnar, sem tölvurnar eru mataðar á. Dagblaðið hefur aldrei notað tölvur við úrvinnslu. Samt hefur blaðið alltaf fengið réttari útkomu en Vísir.

Ekki verður heldur rangt úrtak réttara, þótt það sé stækkað. Dagblaðið hefur alltaf notað minna úrtak en Vísir. Samt hefur blaðið alltaf fengið réttari útkomu en Vísir. Sú reynsla hlýtur að segja nokkra sögu.

Spurningin er fremur sú, hvort vegi þyngra á metunum: Annars vegar gallar símaskrár í símaskrárkönnun, sem nær til 100% úrtaksins. Hins vegar gallar 80% árangurs í þjóðskrárkönnun. Um mismuninn á þessu tvennu má vafalaust skrifa mörg lærð bindi.

Reynslan sýnir svo, að Dagblaðið spáði réttar en Vísir fyrir borgarstjórnarkosningarnar árið 1978. Það spáði líka réttar fyrir alþingiskosningarnar á sama ári. Og það spáði ennfremur réttar fyrir alþingiskosningarnar 1979.

Enn meira máli skiptir þó, að í öll skiptin spáði Dagblaðið svo nærri réttu lagi, að frávikin voru um tvö-þrjú prósentustig á hvern flokk að meðaltali. Og það er ekki hægt að reikna með meiri nákvæmni í skoðanakönnunum.

Aðferðafræði Dagblaðsins hefur staðizt dóm reynslunnar í þrennum kosningum. Það er einkum þess vegna, sem búast má við, að könnun blaðsins um síðustu helgi hafi verið mjög nærri lagi.

Jónas Kristjánsson

Dagblaðið