Móðir Teresa

Greinar

Raunveruleg hetja er látin. Móðir Teresa lézt á föstudaginn í hárri elli. Hún helgaði líf sitt fátæku fólki í Indlandi og rak þar meira en fimm hundruð heimili í áttatíu borgum landsins. Fyrir framlag sitt til mannkyns hlaut hún friðarverðlaun Nóbels árið 1979.

Milli móður Teresu og vinsælasta frægðarfólks nútímans er himinn og haf. Hún var fræg af stórvirkjum sínum, rétt eins og Winston Churchill og Halldór Laxness, hvert þeirra með sínum hætti. Hún var ekki bara fræg fyrir að vera fræg eins og Díana prinsessa.

Leiðir nunnunnar og prinsessunnar lágu einu sinni saman. Þá gaf nunnan sér stundarfjórðungs frí frá mikilvægum störfum sínum og prinsessan gaf sér stundarfjórðungs vinnu frá tilgangslausum frístundum sínum. Nunnan var að safna fé og prinsessan að safna frægð.

Fyrir stundarfjórðungs vinnu í þágu fátækra í Indlandi jók prinsessan við frægð sína og vinsældir. Hún var góð, segir fólk og grætur. Mun færri sýna tilfinningar við andlát móður Teresu, sem var raunveruleg hetja, raunverulegur mannvinur, raunveruleg persóna.

Móðir Teresa var ekki fullkomin fremur en aðrir. Hún var sögð kaþólskari en páfinn, það er að segja afturhaldssöm í trúmálum og þjóðmálum. En hún var ekki álitsgjafi í þessum efnum, heldur hélt hún sér við þá grein, sem hún kunni til fulls, fátækrahjálpina.

Saga móður Teresu er bjart ljós í grimmum heimi. Hún sýndi, að mannfólkið er ekki aðeins duglegt til illvirkja, heldur einnig til góðverka. Hún var mörgum fyrirmynd og áreiðanlega betri fyrirmynd en þorrinn af prinsessum og öðru frægðarfólki nútímans.

Nútíminn dáir innantómt fólk, svo sem Elvis Prestley, sem dó úr ólifnaði, eða Michael Jackson, sem er að deyja úr andlitslyftingum. Fólk dreymir um að vera sjálft í sporum fólks, sem er frægt fyrir að vera frægt, en dreymir ekki um að vera í sporum móður Teresu.

Samt var prinsessan jafn óhamingjusöm og nunnan var hamingjusöm. Bros nunnunnar var margfalt fegurra, enda skein þar innri maðurinn í gegn. En nútímafólk á erfitt með að skilja, að hamingja felist í öðru en endalausum frístundum og samneyti við glaumgosa.

Sennilega á flest fólk erfitt með að skilja, að hamingja geti falizt í þrotlausu erfiði og að óhamingja geti falizt í þrotlausum frístundum. Þetta má einmitt hafa til marks um firringu nútímafólks, er leitar fyrirmynda í sýndarveruleika þeirra, sem eru frægir fyrir að vera frægir.

Blaðalesendur og sjónvarpáhorfendur hafa alltaf viljað vitað meira um skútulíf Jacqueline Kennedy með Onassis og um glaumagosastúss dönsku prinsanna, heldur en um Winston Churchill og Halldór Laxness og hvað þá móður Teresu, sem aldrei fór í næturklúbb.

Móðir Teresa fæddist í Makedóníu af albönsku foreldri. Hún ákvað ung að gerast nunna og fluttist til Írlands, þar sem hún sat í klaustri Loreto-reglunnar. Síðan fór hún á vegum reglunnar til Darjeeling í Indlandi og var þar lengi kennari við klausturskóla.

Á miðjum aldri fékk móðir Teresa köllun um að sinna fátækum í Indlandi. Henni varð vel ágengt. Nunnur flykktust til hennar og voru orðnar um 3.000, þegar húm lézt. Nútíminn má eiga það, að hann kunni að meta verk hennar og studdi þau með vaxandi fjárframlögum.

Móðir Teresa sýndi, að hamingja getur falist í að ná sambandi við sinn innri og æðri mátt og gera það, sem samvizkan býður, en hafna eftirsókn eftir vindi.

Jónas Kristjánsson

DV