Morgunblaðið er bezta fréttablaðið, þegar á reynir. Það slær í morgun upp alvörufrétt, ofsaflóði á Möðrudalsöræfum, sem hvolfdi 40 tonna trukki. Fréttablaðið slær hins vegar upp stofnanafrétt. Það er gervifrétt um, að stofnun í Reykjavík ætli að efna til samkeppni um skipulag, bla, bla, bla. Mogginn lýsir í dag atburðum, sem gerðust í gærkvöldi á Möðrudalsöræfum og birtir mynd af trukknum, sem lagðist á hliðina. Í fréttinni er meira að segja lýst á spennandi hátt, hvernig trukkurinn lagðist á hliðina. Lýst er neistaflugi, brothljóðum og olíuspýjum. Til hamingju með Moggann í dag.