Mokum sjálfir flórinn

Greinar

Aðmírállinn á Keflavíkurvelli varaði Íslendinga við hermangi í frægri ræðu, sem hann flutti á þriðjudaginn, þegar hann kvaddi embætti sitt. Hann sagði, að viðskipti varnarliðsins yrðu að standast endurskoðun þingnefnda og rannsóknarnefnda í heimalandi sínu.

Aðmírállinn var raunar óbeint að tala um Íslenzka aðalverktaka. Það félag stundar með miklum hagnaði áhættulausar framkvæmdir fyrir varnarliðið í skjóli einkaleyfis, sem það hefur fengið hjá valdamiklum þjófaflokkum, er kalla sig stjórnmálaflokka.

Hér er orðið þjófaflokkar notað yfir stjórnmálaflokka, sem leggja áherzlu á að dreifa fríðindum til sérhagsmunahópa og gæludýra af ýmsu tagi, allt á kostnað skattgreiðenda og neytenda, það er að segja almennings í landinu. Aðalverktakar eru eitt gæludýrið af mörgum.

Raunar hefur lengi verið grunur um, að fyrirtækið væri notað til að kosta rekstur stjórnmálaflokka í miklu meiri mæli en stjórnendur fyrirtækisins hafa hingað til viljað játa. Þar að auki hefur það safnað miklu lausafé, sem gefur því gífurlegt stjórnmálavald í landinu.

Oft hefur verið hvatt til, bæði hér í blaðinu og annars staðar, að afnumið verði hermang Íslenzkra aðalverktaka. Það er krabbamein í þjóðlífinu, sem við eigum að losa okkur við sjálf, áður en bandarískir þingmenn hneykslast nógu mikið til að gera það fyrir okkur.

Ýmsar tillögur hafa komið fram. Flestar eiga það sameiginlegt að vilja halda við hermanginu, en færa það yfir á aðrar herðar. Er þá annaðhvort talað um, að ríkið taki að sér hermangið eða að Íslenzkum aðalverktökum verði breytt í almenningshlutafélag um hermang.

Báðar útgáfurnar gera ráð fyrir, að áfram verði hið óeðlilega ástand, að einn aðili raki saman fé í skjóli opinbers einkaréttar á arðbærum og áhættulausum framkvæmdum á vegum varnarliðsins. Þær gera því bara ráð fyrir skárra ástandi, en ekki miklu skárra.

Hugmyndir af þessu tagi munu gera forsætisráðherra áfram kleift að njóta ávaxta hermangsins með því að láta stjórnendur Íslenzkra aðalverktaka bjóða sér í laxveiði í Víðidalsá. Slík atriði skipta miklu í hinu spillta hugarfari margra íslenzkra stjórnmálamanna.

Einni viku áður en Steingrímur Hermannsson fór síðast í laxveiði á vegum Íslenzkra aðalverktaka, kom inn á borð til hans skýrsla um einokun fyrirtækisins á varnarliðsframkvæmdum, þar sem fjallað var um, hve erfitt væri að verja spillinguna fyrir umheiminum.

Þetta var auðvitað ósvífið laxveiðiboð, sem dapurlegt var, að ráðherrann skyldi þiggja. Einnig er ósvífið af Íslenzkum aðalverktökum að greiða stjórnarformanni sínum rúmlega 700 þúsund krónur í mánaðarlaun, auk risnu, ferðakostnaðar, bílakostnaðar og símakostnaðar.

Þegar við þetta bætast beinar greiðslur Íslenzkra aðalverktaka til stjórnmálaflokka, má öllum vera ljóst, að fyrirtækið er orðið að illkynja æxli, sem spillir flestu, er það snertir. Ný og breytt útgáfa sams konar einokunar verður ekki til að breyta rotnunareðli hermangsins.

Heilbrigða tillagan í málinu er Þorsteins Pálssonar. Hann hefur lagt til, að almennt verði framkvæmdir varnarliðsins boðnar út. Þannig yrði málinu í heild komið á eðlilegan viðskiptagrundvöll. Bezt væri, að útboðin yrðu alþjóðleg eins og útboð við virkjanir.

Mikilvægt er, að við tökum mark á aðvörun aðmírálsins og gerum strax hreint fyrir okkar dyrum, áður en bandarískar þingnefndir moka fyrir okkur flórinn.

Jónas Kristjánsson

DV