Ekkert af stórauknum þjóðartekjum Bandaríkjamanna í fyrra skilaði sér til launafólks, sem sætti örlítilli tekjurýrnun upp á 1%. Þetta sýnir misbrest á hagfræðikenningunni um, að molar af borðum hinna ríku hrjóti niður á gólf til hinna fátæku.
Ekkert sjálfvirkt samband þarf að vera milli velmegunar atvinnulífsins og lífskjara launafólks og enn síður milli almennrar velmegunar og lífskjara þeirra, sem minnst mega sín. Þetta samband er að nokkru leyti handvirkt og ræðst af pólitískum sjónarmiðum.
Eins og í Bandaríkjunum hefur bilið milli ríkra og fátækra aukizt hér á landi. Það kemur fram í ýmsum myndum, svo sem aukinni ásókn í aðstoð félagsmálastofnana, auknum kvörtunum frá samtökum aldraðra og í nýrri skýrslu Rauða krossins um fátækt á Íslandi.
Umfang vandans er hins vegar hlutfallslega minna hér á landi en í mörgum öðrum löndum, að Norðurlöndum frátöldum. Ekki er dýrt fyrir þjóðfélagið að beita handvirkum aðferðum til að gæta þess, að bilið milli ríkra og fátækra minnki frekar en að það aukist.
Afnám tekjutengingar bóta almannatrygginga er pólitískt handafl, sem mundi bæta stöðuna, ef ráðamenn landsins kærðu sig um. Hækkun bóta almannatrygginga til jafns við útreiknaðar meðalkjarabætur launafólks er líka pólitískt handafl, sem mundi halda óbreyttu bili.
Sérstakar ráðstafanir í þágu þeirra, sem hafa lítinn eða engan lífeyrissjóð og þurfa að lifa á ellilífeyri, eru handvirk aðgerð, sem hefur þann kost, að hún er ekki til langframa, af því að sífellt fjölgar þeim, sem njóta lífeyrissjóða, og greiðslur sjóðanna batna stöðugt.
Stöðu barna hjá einstæðum mæðrum og í fjölmennum fjölskyldum láglaunafólks má bæta með því að auka barnabætur og afnema tekjutengingu þeirra. Slíkar aðgerðir eru enn eitt pólitíska handaflið, sem mundi efla velferðarkerfið, ef ráðamenn landsins kærðu sig um.
Kjarni málsins er, að ekki er sjálfvirkt samband milli góðæris í þjóðfélaginu og velferðar þeirra, sem minnst mega sín. Kenningin um, að brauðmolum rigni yfir fátæklingana eins og endurnar á Tjörninni, hefur verið hrakin af hagtölum hér á landi sem og erlendis.
Velferðin er handvirk ákvörðun pólitískra stjórnvalda. Þau geta að vísu ákveðið að koma upp sjálfvirkni á einstökum sviðum, svo sem í tengingu bóta við breytingar á ýmsum hagtölum, en önnur stjórnvöld geta síðar komið til skjalanna og breytt tengingunum.
Ef forsætisráðherra fer í fýlu út af skýrslu Rauða krossins um fátækt á Íslandi, þýðir það í raun, að hann hefur ákveðið, að ríkisstjórn hans skuli ekki hafa áhuga á að beita pólitískum aðferðum við að halda óbreyttu bili milli ríkra og fátækra, hvað þá að minnka bilið.
Ekki gildir lengur gömul klisja hátíðlegra stunda, að íslenzkt þjóðfélag sé stéttlaust. Þjóðin er að skiptast í lög eftir aðstöðu, tekjum og eignum. Bilið milli fólks er að breikka á öllum þessum sviðum. Það er pólitísk ákvörðun, hvort hamla eigi gegn þessu eða ekki.
Hér er ekki verið að tefla um mikla fjármuni í samanburði við annað pólitískt handafl stjórnmálanna, svo sem gríðarlegan áhuga ráðherra og þingmanna á að verja nokkrum milljörðum króna á hverju ári til að grafa jarðgöng víða um land og halda uppi kindum.
Í samræmi við áhugamál okkar höfum við valið okkur landsfeður, sem hafa ákveðið, að í lagi sé, að bilið milli ríkra og fátækra breikki sjálfvirkt í góðærinu.
Jónas Kristjánsson
DV