Íslenzku möllin í Kringlunni og Smáralind eru krækiber í samanburði við 400 verzlana Mall of America í Bloomington í Minnesota, sem senn á að tvöfalda að stærð og gera að “áttunda furðuverki veraldarinnar” með ótal kaffi-, vín- og veitingahúsum, tívolíi, dýragarði og fjölskyldugörðum.
Möllin rísa, þar sem miðbæir verjast ekki, svo sem víða hefur gerzt í Bandaríkjunum, svo sem í Dallas, Los Angeles, Atlanta og Buffalo, en ekki í New York og San Francisco, einnig sums staðar í Englandi, svo sem í Liverpool og Manchester. Möllin taka við, þegar miðbæir fara að deyja.
Á meginlandi Evrópu hafa miðbæir varizt og sums staðar teflt til sóknar, til dæmis í Berlín og Barcelona. Almenna reglan um alla Evrópu er, að miðbæir eru fullir af lífi jafnt utan sem innan vinnutíma. Víðast í Bandaríkjunum eru miðbæir dauðir utan vinnutíma, ef yfirleitt er unnt að staðsetja þá.
Miðbærinn í Reykjavík hefur ekki varizt möllum, þótt óeðlilega hlýir sumardagar geti villt mönnum sýn um stundarsakir. Fyrir miðbæ er ekki nóg að hafa hundrað bari, slíkt framleiðir bara St. Pauli eða Montmartre, en skapar ekki raunverulegan miðbæ, sem fjölskyldur geta notið
Íslenzkar fjölskyldur fara um helgar í Kringluna og Smáralind, þótt þær séu ekki nema svipur hjá sjóninni í Bloomington. Þær fara ekki í miðbæinn, þótt þar séu hundrað barir. Þær fara líka í fjölskyldugarðinn og í Nauthólsvík, þegar veður leyfir, sem gerist sjaldan í venjulegu árferði.
Í miðbæ Reykjavíkur er einkum takmarkað aldurssnið af lausagöngufólki og svo auðvitað mergð af túristum. Þar berst verzlun og önnur þjónusta í bökkum, önnur en veitingar. Við Laugaveginn er jafnan verið að loka fimm eða tíu verzlunum eða flytja þær. Miðbær Íslands er á hægfara undanhaldi.
Auðvitað eru möllin þunn eftirlíking miðbæjar, þótt fólk átti sig ekki á því. Möllin geta aldrei orðið borgaralegt samfélag eins og sögufrægir miðbæir heimsins. Þær eru aðferð markaðarins til að lina vanda, þegar ráðamenn geta ekki haldið lífi í miðbæjum eða átta sig ekki á þeirri þörf.
Feillinn í Reykjavík var, að borgaryfirvöld hafa aldrei áttað sig á, að haust, vetur og vor er mestan hluta ársins og þjóðin vill eyða frítíma sínum í veðursæld undir þaki. Þess vegna tókst aldrei að yfirbyggja Laugaveginn. Þess vegna tóku yfirbyggð möll við af miðbænum með léttum leik.
Íslenzkir ferðamenn flykkjast í Mall of America, sem er ekki heimaland neins, öfugt við Börsunga og Feneyinga, Parísarbúa og Rómverja, sem vita, hvaðan þeir koma og hvar er heima.
Jónas Kristjánsson
DV