Mongolian Barbecue

Veitingar

Ég efast um, að Gengis Kahn kannaðist við matreiðsluna, ef hann villtist inn í Mongolian Barbecue við Grensásveg. En hann fengi góðan mat, sem hann kynni sennilega að meta, hvað sem líður ónákvæmri þjóðfræði í veitingamennsku.

Glansandi ferskt hráefni

Helzti kostur Mongolian Barbecue er, að gestir velja sjálfir hráefni í matinn. Kjöt og grænmeti liggur glansandi í skúffum, svo að hægt er treysta, að varan sé eins fersk og hún lítur út fyrir að vera.

Mér er sagt, að þetta sé formúlumatstofa í tengslum við danska keðju veitingahúsa. Samkvæmt því ætti Mongolian Barbecue að vera fremur lélegur staður, eins og keðjustaðir eru yfirleitt, en svo er alls ekki farið í þessu tilviki.

Ferns konar kjöt er í Mongolian Barbecue, nautakjöt, lambakjöt, svínakjöt og kjúklingar. Kjötið er tekið fryst og sneitt í næfurþunnar sneiðar, sem gestir fá sér á disk. Bezt er að fá sér eina tegund kjöts í einu, því að allt fer í einn graut í matreiðslunni.

Álitlegasti salatbarinn

Margs konar grænmeti er í skúffum til hliðar við kjötið. Þar má nefna girnilega sveppi, tómata, gúrkur, kínakál, jöklasalat, baunaspírur og sitthvað fleira. Þetta er einhver álitlegasti salatbar, sem ég hef séð um nokkurt skeið í Reykjavík.

Gestir geta valið um, hvort þeir setja eitthvað af þessu góðmeti á sérstakan disk til að hafa sem hrásalat eða hvort þeir slengja því öllu á disk með kjötinu til að fá allt steikt í einu lagi.

Hinum megin á salatbarnum er löng röð af margvíslegum sósum. Þjónustufólkið aðstoðar við að velja sósurnar. Að því búnu tekur kokkurinn við diskinum og sturtar úr honum á stóra pönnu, þar sem maturinn snöggsteikist.

Í rauninni þarf hver tegund hráefnisins sinn sérstaka steikingartíma, eins og sjá má í hliðstæðum japönskum veitingastofum, þar sem gestir sitja umhverfis kokkinn og eldavélina. Í Mongolian Barbecue er ekki farið út í æðri matargerðarlist af því tagi.

Útkoman er samt mjög góð. Maturinn er einkar lystugur. Þar leggst tvennt á eitt. Allir geta séð með eigin augum, að hráefnið er ferskt. Og augljóst er, að snögg steiking gefur ekkert svigrúm til að misþyrma hráefninu.

Miðlungsverð

Aðgangur að hlaðborðinu, sem hér hefur verið lýst, kostar 1.280 krónur, sem er fremur ódýrt í reykvíkskum samanburði. Innifalin í verðinu er súpa dagsins. Síðast, þegar ég kom í heimsókn, var það grænmetisseyði með blaðlauk, rosalega piprað, en alveg ætt eigi að síður. Áður hafa súpur staðarins reynzt mér betur.

Eftirréttir kosta 340 krónur að meðaltali. Þeir eru ekki merkilegir. Eplakaka var afar léleg, en súkkulaðifroða var skárri. Hún gengur undir heitinu “súkkulaðimús” á matseðlinum. Mér finnst sérkennilegt, hvað þessi danska sletta er lífseig hér á landi, eins og hún er ólystug í sjálfu sér.

Súpa, hlaðborð, eftirréttur og kaffi fer í 1.750 krónur, sem er fremur lágt verð.

Vínlisti staðarins hefur að geyma nokkrar nothæfar tegundir, svo sem Riesling Hugel og Château du Cléray í hvítvínum, Santa Cristina og Riserva Ducale í rauðvínum.

Feitar, franskar frúr

Mongolian Barbecue hóf göngu sína í innréttingum frá tíma Úlfars og ljóns. Enn er staðurinn svipaður að útliti, en hefur verið mjókkaður töluvert, svo að hann líti ekki eins tómlega út. Hann tekur um 60 manns í sæti í aðalsal.

Hér og þar hefur verið bætt austrænu dóti til að gefa meinta Mongólastemmningu. Mest ber á stórum platvösum úti í sal og blævængjum á vegg ofan við afgreiðsluborð.

Þessi þjóðfræði staðarins er þó ekkert sérstaklega ýkt. Og raunverulega felst þungi skreytinganna í fjölmörgum, stórum eftirprentunum málverka af feitum, frönskum konum, afar vestrænum.

Innréttingin að baki þessara skreytinga er einföld. Ljósbrúnar flísar eru á gólfi. Veggir eru úr gulmáluðu tré að neðaverðu. Í lofti er einfalt grindaloft falskt. Tréspírur hanga í gluggum. Súlur á miðju gólfi eru rauðmálaðar. Þetta er ódýrt og gott, en laust við að vera heimilislegt.

Rauðir dúkar eru á borðum og næfurþunnar pappírsþurrkur, sem koma að litlu gagni.

Hér dugar ekkert dosk

Mongolian Barbecue veitir fulla þjónustu, ef frá er talið, að gestir velja sér sjálfir af hlaðborði hréfefni í matinn. Þjónustan er góð og örugg, en stundum einum of skjótráð og ákveðin, þegar hægfara hugsandi gestir eru að velta fyrir sér, hvaða sósur eigi vel saman.

Enda hefði Gengis Kahn sjálfur ekki látið duga neitt dosk hjá gestum, sem eru seinir að ákveða sig.

Jónas Kristjánsson

DV