Mongolian Barbeque er ágætt einu sinni eða jafnvel tvisvar, af því að það er öðru vísi en önnur veitingahús. Til lengdar er það hins vegar leiðigjarnt, því að þar er alltaf sami matur ár eftir ár, pönnusteiking af óbreytanlegu hlaðborði fyrir 1580 krónur á mann.
Verðið hefur hækkað, meðan annað veitingaverð í bænum hefur staðið í stað eða lækkað. Þetta verð er í lagi, ef gesturinn getur fengið sig til að líta á heimsóknina sem nýstárlega veizlu. Það er of hátt, ef hann er bara að reyna að borða eins og hann getur í sig látið, því að nokkrir aðrir veitingastaðir bjóða hlaðborð á lægra verði. Á matseðlinum er lögð áherzla á ofátið.
Ekkert mongólskt er við staðinn eða matreiðsluna. Á matseðlinum er bullað frjálslega um, að Djengis Kan hafi fengið svona mat fyrir átta öldum, en ég hef aldrei lesið um slíkt í sagnfræði matargerðarlistar. Mér sýnist nafn staðarins og sagnfræði matseðilsins helzt vera uppfinning einhvers grínista á auglýsingatofu.
Umhverfið er ekki sérstaklega vistlegt. Það kemur úr þremur áttum. Fátæklegar og gulmálaðar innréttingar eru að mestu frá tíma fyrra veitingahúss á þessum stað. Þegar nafn staðarins varð mongólskt, var bætt við fjöldaframleiddu Kínadóti úr plasti, svo sem vösum, luktum og blævængjum. Ennfremur málverkum af feitum og frönskum frúm, sem virðast aðframkomnar af ofáti.
Mongolian Barbeque er opið á kvöldin, þegar Grensásvegurinn er orðinn fremur eyðilegur, enda hafa mér virzt gestir ekki margir. Stólar og borð og næfurþunnar pappírsþurrkur eru í þjóðlegum mötuneytisstíl. Rauðir dúkar og matarprjónar koma hins vegar úr kínversku áttinni.
Máltíðin hófst með súpu, sem gestir skófluðu upp úr potti. Þetta hafa verið tærar kjötsúpur, fremur bragðdaufar í kínverskum stíl, og raunar alltaf sama súpan, þegar ég hef verið þar, alveg frambærileg súpa.
Síðan völdu gestir sér hrátt grænmeti og hrátt kjöt, svo og sósublöndur af hlaðborði. Kokkurinn tók síðan allan matinn og snöggsteikti hann í einu lagi á pönnu. Ekki notaði hann fínlegar aðfarir að japönskum hætti, heldur fékk allt hráefnið sama steikingartímann, allt í einum graut, frá sveppum yfir í lauk. Þetta sýnist mér vera tilfinningalítil og mötuneytisleg eldamennska á færibandi.
Frosið kjöt var sagað í þynnur, svo að það hentaði vel í þessa snöggu matreiðslu. Yfirleit hafa verið á boðstólum fjórar tegundir, naut, lamb, svín og kjúklingur. Sósublöndurnar hafa einkum verið fjórar, súrsæt, karrí, soja og sítrónu, en einnig til dæmis sesam, hvítlaukur, sykur, engifer, rísvín, barbeque, sterk chili og vínedik.
Grænmetið var bezti þáttur hlaðborðsins, ferskt og fallegt. Þar hafa verið sveppir og bambusræmur, laukur og baunaspírur, tómatar og gúrkur og paprika, svo og ýmislegt kál og salat. Þetta má setja saman í hrásalat eða láta snöggsteikja fyrir sig. Sérstakar sósur eru fyrir hráa grænmetið og aðrar fyrir það steikta.
Tilveruréttur Mongolian Barbeque í veitingahúsaflórunni byggist á því, að útilokað er að nota annað en gott hráefni. Gestir sjá það allt í hlaðborðinu áður en það er steikt, fallegar kjötþynnur og frísklegt grænmeti. Það veitir óneitanlega töluverða öryggistilfinningu.
Jónas Kristjánsson
DV