Gegn eindregnum vilja Bandaríkjastjórnar hafa stjórnarandstæðingar Íraks sameinazt um að mynda nú þegar bráðabirgðastjórn fulltrúa hinna ýmsu þjóða landsins, Sjíta, Kúrda og Súnna. Bandaríkin vilja heldur setja upp eigin herstjórn með stuðningi illa þokkaðra embættismanna úr Baatistaflokki Saddam Hussein. Stjórnarandstæðingar hafa líka sameinazt um skipun sendinefndar til Tyrklands til að mótmæla fyrirhuguðu hernámi Tyrkja í löndum Kúrda í norðurhluta Íraks. Stjórnarandstæðingar segjast munu grípa til vopna, ef Tyrkir ráðizt inn í landið. Zalmay Khalilzad, sendimaður George W. Bush Bandaríkjaforseta, fór sneypuferð fyrir helgina á fund írakskra stjórnarandstæðinga í Alaheddin. Svokölluð frelsun Íraks virðist greinilega vera flóknara mál en stjórn Bandaríkjanna og málsvarar hennar víða um heim vilja vera láta. Frá þessu segir í New York Times.