Fyrir mörgum árum var Múlakaffi gott veitingahús. Flutningabílstjórar sóttu þangað og stífluðu nálægar götur með bílum sínum. Þeir eru farnir annað, en eftir sitja leigubílstjórar og iðnaðarmenn. Þeir virðast ekki hafa sama nef fyrir góðum mat og flutningabílstjórar.
Ég veit ekki hvers vegna, en víðar um heim, til dæmis í Frakklandi og Bandaríkjunum, er gott ráð að leita uppi staði, sem flutningabílstjórar sækja á matartímum.
Múlakaffi hefur alltaf verið framúrstefnulega óvistlegur matstaður. Hann er opinn og kaldur og þó fyrst og fremst grár og aftur grár. Plaststólar eru við nakin plastborð með óhreinum leir og plastbökkum. Undir stálfótunum er grátt teppi, sem orðið er blettótt og þreytulegt.
Samt er þetta eins konar klúbbhús einstæðra karla, þar sem margir sitja áfram góða stund, þegar þeir eru búnir að fá sér að borða og kunna greinilega vel við sig.
Þetta er mötuneyti með sjálfsafgreiðslu, þar sem menn taka sér á disk við skenkinn og verða síðan að sæta því, að maturinn kólni meðan þeir eru að borða súpuna eða að grauturinn kólni meðan þeir eru að borða matinn. Kaffi geta menn hins vegar sótt sér síðar eftir þörfum.
Að meðaltali kostar 740 krónur að fá sér einn af sjö réttum dagsins; súpu eða graut; og kaffi. Í hádeginu eru margir staðir ódýrari en Múlakaffi. Á kvöldin er staðurinn aftur á móti í ódýrasta kanti, því að þá er minna um tilboð hjá öðrum. En hinir staðirnir eru ekki mötuneyti, bjóða yfirleitt einhverja eða jafnvel fulla þjónustu.
Venjulegar súpur dagsins í Múlakafi hafa reynzt mér undantekningarlaust vondar, frá tómatsúpum yfir í sveppasúpur. Þær voru þykkar og hveitikekkjaðar og einstaklega hlutlausar í bragði. Ég man ekki eftir öðrum eins súpum á ævinni. Brauðið með súpunum var hins vegar í lagi. Og einu sinni fékk ég ágæta baunasúpu.
Gufusoðin lúða var afar lengi soðin og eftir því þurr, borin fram með bragðdaufri ostasósu, hvítum kartöflum og vélskornu hrásalati í miklu magni. Lifur var sæmilega mjúk, borin fram með miklu magni af brúnni og bragðlausri þykksósu, blönduðu dósagrænmeti, rauðkáli og höm. Hrásalataið var bezt í þessari atrennu.
Beinlausir fuglar voru þrælsteikt kálfakjöt, vafið um höm, borið fram með dósagrænmeti, rauðkáli, hrásalati og stöppu. Kálfasnitsel var grimmdarsteikt og þurrt, borið fram með eins konar skæni, sem hét pastasósa, brúnuðum kartöflum, rauðkáli og dósabaunum. Pastarétturinn lasagna með kjöthakki var með frjálsu vali meðlætis, svo að hægt var að forðast rauðkál og dósabaunir.
Grautur reyndist vera Vilko-ávaxtasúpa. Eða þannig.
Einkenni matreiðslunnar voru mikið magn; langur eldunartími; þykkar og bragðlausar súpur og sósur; rauðkál og dósagrænmeti af ýmsu tagi; alveg eins og tíðkaðist í mötuneytum í gamla daga, fyrir þann tíma, er Múlakaffi var árum saman gott veitingahús. Enginn vandi væri að hafa matinn betri og þó á sama verði.
Mér dettur helzt í hug, að þetta eigi að vera svona; viðskiptavinirnir vilji einmitt þennan gráa mat í þessu gráa umhverfi, því að þeir mundu telja kvenlegt eða hommalegt að borða smmilegan mat í sæmilegum húsakynnum, jafnvel þótt hann væri ódýrari og færi betur í maga.
Jónas Kristjánsson
DV