Munaður hins fátæka

Greinar

Sigurför vestrænna mannréttinda í Austur-Evrópu er þegar byrjuð að hafa áhrif í þriðja heiminum. Harðstjórar hans sæta nú vaxandi þrýstingi heima fyrir og geta ekki lengur hlaupið í skjól heimsveldanna til að komast upp með ófyrirgefanleg brot á mannréttindum.

Til skamms tíma kepptu heimsveldin tvö og hergagnaframleiðsluríki Evrópu um hylli Saddams Husseins í Bagdad. Valdamenn lokuðu augunum fyrir grimmdarlegum stjórnarháttum hans heima fyrir, notkun efnavopna gegn Kúrdum og innrás hans í Persíu.

Nú þarf enginn að hafa áhyggjur af, að harðstjórar heimsins hlaupi í faðm Sovétríkjanna. Þau vilja ekki lengur hafa með útlenda dólga að gera. Þau eru í þann veginn að þvo hendur sínar af Castro á Kúbu. Þau eru að losa sig úr erlendum hernaðarskuldbindingum.

Endurnýjuð aðild Austur-Evrópu að hugmyndaheimi Vesturlanda hefur meira að segja gefið hugsjónum lýðræðis og mannréttinda aukið innihald. Vaclav Havel, hinn nýi forseti Tékkóslóvakíu, er viðurkenndur í Vestur-Evrópu sem bezti talsmaður hugsjóna Vesturlanda.

Lýðræði og mannréttindi þýða frjálsar kosningar, frjálsa myndun félaga, frjálsa útgáfu fjölmiðla, frjáls skrif. Lýðræði og mannréttindi þýða, að vestrænar hugmyndir endurspeglast í lagabálkum, sem eru æðri geðþótta valdhafa. Nema kannski í ráðherraveldi Íslands.

Í þriðja heiminum þýða lýðræði og mannréttindi, að fólk þarf ekki að óttast ofsóknir lögreglu og hers. Það getur lifað lífi sínu í friði og tekið þátt í þjóðmálaumræðunni, ef því þóknast. Þetta er undirstaða þess, að þriðji heimurinn geti orðið vel stæður og vestrænn.

Smám saman er að renna upp fyrir þriðja heims fólki, að leiðin til farsældar er um hugsjónir Vesturlanda. Hitt var bara risastór lygi, að ekki væri rúm fyrir lýðræði í þriðja heiminum, að hver þjóð yrði að sameina krafta sína undir öruggri stjórn harðstjórans.

Eins manns kerfið er hrunið um allan heim. Daniel Arap Moi í Kenýa fær nú að heyra á Vesturlöndum, að hann er einfaldlega glæpamaður. Menn eru hættir að tala af virðingu um Julius Nyerere, sem eyðilagði efnahag Tanzaníu með hjálp norrænna þróunarsérfræðinga.

Sannleikurinn er beizkur harðstjórum hinna nýfrjálsu ríkja. Augljóst er, að alþýða manna hefur aldrei átt eins góða daga og hún átti í skjóli lagahefðar og annarra formsatriða lýðræðis á tímum nýlenduveldanna. Eftir sjálfstæði hefur allt sigið á ógæfuhliðina.

Augljóst er orðið, að eins flokks kerfi og ofanstýrt atvinnulíf gekk ekki í Sovétríkjunum og leppríkjum þeirra. Enn frekar er orðið ljóst, að eins flokks kerfi og ofanstýrt atvinnulíf hefur sett mestalla Afríku á höfuðið og valdið íbúum álfunnar óbærilegum þjáningum.

Nú dugar harðstjórum heimsins ekki að nota kommagrýluna og kanagrýluna. Doe í Líberíu og Mobutu í Zaire eru Bandaríkjunum einskis virði. Castro á Kúbu og Najib í Afganistan eru Sovétríkjunum einskis virði.

Þróunaraðstoð verður ekki framvegis sólundað í sama mæli og áður. Þeir, sem aðstoð veita, munu í auknum mæli gera kröfur um viðunandi stjórnarhætti í þróunarlöndum. Með viðunandi stjórnarháttum er ekki átt við neina þriðju leið, heldur vestrænt lýðræði. Nú hafa Vesturlönd byr til að fylgja fast eftir þeirri staðreynd, að lýðræði og mannréttindi eru ekki munaður ríkra þjóða, heldur forsenda framfara fátækra þjóða.

Jónas Kristjánsson

DV