Mútur breiðast út á Íslandi

Greinar

Útgefendur vildarkorta og fríkorta múta starfsmönnum stofnana og fyrirtækja til að gera óhagkvæm innkaup. Fólk flýgur til dæmis með Flugfélagi Íslands í stað Íslandsflugs og það flýgur á Sögu-farrými í stað almenns farrýmis til að afla sér persónulegra punkta.

Ekkert samband er milli þess, hver greiðir vöruna eða þjónustuna og hver fær punkta fyrir að kaupa hana eða nota. Þannig geta þeir, sem kaupa inn fyrir stofnanir og fyrirtæki, látið setja punktana á fríkort sitt. Sama er að segja um flugfarþega, sem ekki borga sjálfir.

Vegna andvaraleysis fjármálaráðuneytisins er ríkið stærsta fórnardýr mútukerfisins. Það lætur undir höfuð leggjast að semja við flugfélög um meðferð punktakerfa og annarra vildarmála og að neita viðskiptum við þá aðila, sem ekki vilja semja um málið.

Ríkið er einnig fórnardýr að því leyti, að punktarnir fara allir fram hjá skatti. Þetta eru tekjur, sem ekki eru taldar fram og eru því verðmætari fyrir mútuþegann en aðrar tegundir tekna. Ríkisskattstjóri er þó vaknaður af værum blundi og farinn að hugleiða málið.

Almenningur borgar líka fyrir mútukerfið. Það má til dæmis sjá af því, að Íslandsflug gafst upp á lágum fargjöldum, þegar farþegar vildu heldur láta borga fyrir sig dýr fargjöld til þess að fá vildarpunkta. Íslandsflug er því að ganga í Vildarklúbbinn og hækka fargjöld sín.

Þjóðfélagið í heild tapar á mútukerfinu. Til er alþjóðlegt hagfræðilögmál, sem segir, að beint samband sé milli spillingar og slæms gengis í efnahagsmálum. Mútukerfi soga til sín orku fólks og leiða þróun efnahagsmála og flæði peninga inn á óhagkvæmar brautir.

Með mútukerfi vildarkorta og fríkorta eru þar á ofan sett enn ein mörkin milli þeirra, sem aðstöðu hafa og hinna, sem hana hafa ekki. Múturnar eru á þann hátt illkynjað æxli í þjóðarlíkamanum og valda því, að minni samstaða er með þjóðinni en ella væri og vera þarf.

Mörkin eru líka sett milli hinna heiðvirðu, sem geta notað sér múturnar, en gera það ekki, og hinna, sem láta múta sér. Skilaboðin til þjóðarinnar eru þau, að það borgi sig ekki að vera heiðarlegur á Íslandi í lok 20. aldar. Heilsteyptur heiðarleiki sé sama og heimska.

Af öllum þessum ástæðum er brýn ástæða fyrir þjóðfélagið að skera upp meinsemd vildarkorta og fríkorta. Eyða þarf mútuþætti kortanna, skattleggja punktana og fjármagna neytendafræðslu um skuggahliðar fríðindaverzlunar og annarra bellibragða af þessu tagi.

Skattlagningin er einföldust. Hún fæst með því að skylda útgefendur punktakerfa til að senda skattstjórum skrár yfir úthlutaða punkta. Þetta þarf að gera með reglugerð nú þegar, svo að ráðamenn þjóðarinnar verði ekki sakaðir um hagsmunagæzlu fyrir mútugjafa.

Neytendafræðsla er fyrirbyggjandi langtímamál. Skýra þarf, hvernig vildarkort og fríkort eru angi víðtækra sjónhverfinga, sem í vaxandi mæli taka við af hefðbundnum og heiðarlegum magnafsláttum, sem byggjast á, að ódýrara er að selja mikið en lítið.

Að mútuþættinum má ráðast með því að gera kröfur um beint samband milli þess, sem raunverulega greiðir vöruna og þess, sem fær afsláttinn fyrir að kaupa hana. Það gerist með því að banna vildarkort og fríkort og benda í staðinn á leið hefðbundinna magnafslátta.

Vildarkortin og fríkortin eru ný og stórfelld meinsemd hér á landi. Þau fela í sér, að mútur læðast um þjóðfélagið, eitra það og grafa undan innviðum þess.

Jónas Kristjánsson

DV