Mútur næstar á dagskrá

Punktar

Donald Rumsfeld, stríðsmálaráðherra Bandaríkjanna, íhugar nú, hvort framkvæma skuli áætlun í ráðuneytinu um að snúa óhagstæðu almenningsáliti heimsbyggðarinnar á Bandaríkjunum, þar á meðal í ríkjum bandamanna þeirra. Thom Shanker og Eric Schmitt segja frá þessu í New York Times í dag. Mikilvægur þáttur ráðagerðarinnar er að múta fjölmiðlungum og félagsmálaberserkjum og magna þannig spillingu um allan heim. Í febrúar varð Rumsfeld að hætta við stofnun sérstakrar áróðursdeildar ráðuneytisins, sem átti einkum að planta lygum í erlenda fjölmiðla. Þá lak áætlunin til fjölmiðla og nú hefur nýja áætlunin gert það einnig. Vonandi verða örlög hennar hin sömu og hinnar fyrri. En hugarfarið að baki beggja leynir sér ekki.