Myndbirtingar báknsins

Greinar

Fyrirbærið, sem við köllum stundum báknið og stundum kerfið, tekur oft á sig óvenjulegar myndir, stundum skemmtilegar og annars leiðinlegar, stundum jákvæðar og annars neikvæðar. Myndbirtingar kerfisins eru fréttaþyrstum fjölmiðlum sífellt umræðuefni.

Ein ánægjulegasta myndbirtingin undir lok ársins var sýknudómur Héraðsdóms Suðurlands í máli manns, sem hafði ölvaður ekið slasaðri konu úr óbyggðum til byggða, þaðan sem hann gat hringt í lögregluna. Dómstóllinn taldi, að nauðsyn hefði verið lögum æðri í tilvikinu.

Sektardómur hefði ekki eflt löghlýðni fólks og síður en svo aukið virðingu þess fyrir lögunum. Með því að sveigja niðurstöðuna frá formfestu að mannlegum og réttlátum sjónarmiðum hefur Héraðsdómur Suðurlands sýnt óvænta og jákvæða hlið á réttarkerfi okkar.

Sorglegasta myndbirting báknsins voru aðgerðir utanríkisráðherra og sýslumannsins á Keflavíkurvelli til að hindra, að Friði 2000 tækist að koma rétta boðleið jólagjöfum til írakskra barna, þótt jólagjafirnar hefðu tilskilda pappíra frá sjálfum Sameinuðu þjóðunum.

Hatrið blindar mönnum sýn. Þannig hefur utanríkisráðherra blindazt af ásökunum forstöðumanns Friðar 2000 út af óbeinni aðild ráðherrans að óbeinum ofsóknum Vesturlanda gegn írökskum almenningi. Þess vegna misbeitti hann valdi gegn jólagjöfum til barna.

Undarlegasta myndbirting kerfisins var skýrsla, sem trausti rúinn ríkisendurskoðandi afhenti Alþingi um fyrirtækið Stofnfisk, hluta af einkavinavæðingu stjórnvalda. Í skýrslunni voru birt sum málsgögn og ekki önnur. Og birtu málsgögnin voru sumpart yfirstrikuð.

Áður hafði komið fram í máli Landsbankans, að stjórnarandstaðan getur ekki treyst núverandi ríkisendurskoðanda, sem er einn af “strákunum” og lítur á það sem skyldu sína að vernda hagsmuni stjórnvalda, á milli þess sem hann reynir að hamstra sér aukatekjur.

Steininn tekur úr, þegar hann ræðst með tússpenna á skýrslu og gerir hana ólæsilega, áður en hún er prentuð og afhent Alþingi. Hann þurfti ekki nema eitt tússpennastrik til að eyðileggja traust embættisins, en lét sig ekki muna um marga tugi slíkra tússpennastrika.

Flutningur ríkisendurskoðunar til Alþingis átti að vera aðferð til að auðvelda löggjafarvaldinu að heimta hluta af eftirlitshlutverki sínu úr gíslingu framkvæmdavaldsins. Þessi tilraun hefur gersamlega mistekizt, svo að Alþingi þarf nýtt tæki til eftirlits með bákninu.

Ánægjulegustu fréttir úr bákninu undir áramót fólust í margs konar töku fíkniefna í stórum stíl. Þær benda til, að þeir, sem hafa það hlutverk að hindra innflutning og dreifingu fíkniefna, hafi náð betri tökum á starfinu og séu orðnir færir um að draga úr eiturflóðinu.

Raunar hefur til skamms tíma verið áhyggjuefni, hversu lítið hefur verið um, að taka fíkniefna hjá neytendum hafi leitt til að löggæzlan hafi getað lesið sig eftir þráðum upp til stórdreifenda og lykilmanna fíkniefnaheimsins. Þetta er núna vonandi að breytast.

Bjartsýnasta fréttin úr bákninu er, að ríkið hefur ákveðið að gefa 7,5 milljónir króna til slátrunar 1.600 hrossa fyrir Rússa, svo að hrossamarkaðurinn rétti sig af. En hrossastofninn verður búinn að ná fyrri stærð löngu áður en Rússar eru búnir að borga fyrir kjötið.

Að lokum má ekki gleyma garminum henni Örnefnanefnd, sem hefur látið frá sér fara enn einn sinna frægu úrskurða. Nú má Ölfusið ekki heita Ölfus.

Jónas Kristjánsson

DV