Myndfundir í stað ferða

Greinar

Of snemmt er að spá, hvort tilraun til myndfundar, sem gerð var í gærmorgun á vegum Evrópuráðsins að tilhlutan Tómasar Inga Olrich, muni leiða til, að farið verði almennt að gefa kost á slíkum fundum. En það er greinilega í þágu okkar hagsmuna, að svo verði.

Íslendingar taka þátt í margvíslegu fjölþjóðlegu samstarfi. Oft kostar um þriggja daga vinnutap og 150­200 þúsund krónur á hvern mann að skreppa á fundi, sem eru mikilvægur þáttur samstarfsins. Þetta er mikill kostnaður og dregur úr líkum á íslenzkri þátttöku.

Afleiðingin er oft, að farið er bil beggja. Lagt er í mikinn kostnað við að sækja sem svarar öðrum hverjum fundi. Fyrir bragðið verður þátttakan að fálmi. Menn eiga erfitt með að vinda ofan af breytingum, sem orðið hafa milli fundanna, sem þeir hafa fé til að sækja.

Nefndastörf og fundir eru auðvitað misjafnlega nytsamleg fyrirbæri. Ef hins vegar menn telja, að þátttaka í fundaferli skipti íslenzka hagsmuni máli, er vont að þurfa að taka þátt í því með annarri hendi. Betra er að vera alveg með eða ekki en að vera með að hálfu.

Stundum hefur komið fyrir, að íslenzkir hagsmunir hafa verið fyrir borð bornir vegna skorts á peningum til mætinga á fundi í útlöndum. Skemmst er að minnast, er séríslenzkir bókstafir voru næstum dottnir út úr fyrstu og beztu töflu hins alþjóðlega staðals fyrir tölvur.

Svo vel vill til, að tölvu- og símatækni nútímans gerir ferðalögin, tímatapið og kostnaðinn úrelt fyrirbæri. Myndfundir eru farnir að ryðja sér til rúms í atvinnulífinu, enda er einkaframtakið venjulega fyrst til að tileinka sér tækni til sparnaðar og hagræðingar.

Evrópuráðið kom hins vegar af fjöllum, þegar Tómas benti á þessa nýju tækni sem leið til að auka virka þátttöku fulltrúa frá fjarlægum ríkjum. Ráðamenn þess fengust þó eftir fortölur til að láta framkvæma í gærmorgun tilraun, sem vonandi festir sig í sessi.

Ef Evrópuráðið tekur upp þessa tækni, aukast líkur á, að fjölþjóðlegar stofnanir fáist til að feta í sporin. Mikilvægt er, að íslenzkir aðilar, sem geta haft áhrif á slíkan gang mála, láti hendur standa fram úr ermum við að gæta íslenzkra fjarlægðarhagsmuna á þessu sviði.

Myndfundir koma ekki nema að hluta í stað hefðbundinna funda. Í sumum tilvikum er nauðsynlegt, að menn hittist persónulega. Það gildir bæði um atvinnulífið og opinberar stofnanir. En mikið af fundum er þess eðlis, að myndfundir eiga að geta leyst þá af hólmi.

Myndfundatæknin nýtist við allar aðstæður, þar sem fólk þyrfti ella að koma úr ýmsum áttum á einn stað. Þeim mun dreifðari, sem menn eru venjulega og þeim mun meiri, sem fjarlægðir eru, þeim mun meiri líkur eru á, að myndfundir geti borgað sig.

Almenn útbreiðsla myndfundatækni sparar ferðalög innan lands og utan, nýtir tíma fólks betur og leiðir til almennari þátttöku í fundum, sem skipta máli. Menn munu þó áfram hafna myndfundum í samstarfi á borð við það norræna, þar sem veizlur eru aðalatriðið.

Samgöngutækni fólks er alltaf að breytast. Bíllinn leysti hestinn af hólmi og flugvélin leysti skipið af hólmi. Síminn leysti bréfið af hólmi og nú er stafrænn póstur að ryðja sér til rúms. Sjónvarpið sýnir okkur atburði um leið og þeir gerast hinum megin á hnettinum.

Okkur ber að vera fljót að nýta tækni myndfunda og hvetja samstarfsaðila til hins sama. Til sögunnar er komið nýtt og öflugt samgöngutæki, sem skilar arði.

Jónas Kristjánsson

DV