Myndmál er myllusteinn

Greinar

Jafnvel atvinnumenn í blaðamennsku létu sig hafa það að sitja lon og don fyrir framan gervihnattasjónvarpið og gleðjast yfir að geta fylgzt með stríði í beinni útsendingu. Þeir sáu stillimynd af fréttamanni, sem sagðist vera að rétta hljóðnema út um hótelgluggann.

Efnislega höfðu aðrir fjölmiðlar yfirburði í Persaflóastríðinu. Dögum og vikum saman var ekkert að gerast, sem hægt var að festa á mynd, nema myndir af sködduðum mannvirkjum í Tel Aviv, sem voru alger aukageta í merkilegu stríði, sem verður skráð í herfræðibækur.

Stóru sjónvarpsstöðvarnar eru háðar takmörkunum hins fjölmenna liðs, sem er á bak við hvert skot í sjónvarpi. Aðrir fjölmiðlar gátu frekar nýtt sér hið mikla magn upplýsinga, sem barst frá alþjóðlegum fréttastofnunum, sem höfðu kraftmeiri fréttaöflun en sjónvarpið.

Myndmálið er myllusteinn um háls sjónvarpsins, þegar kemur að atburðum á borð við Persaflóastríð. Erfitt er að gera atburði að fréttum í sjónvarpi, nema til sé af þeim kvikmynd. Fréttirnar verða helzt að sveigjast að leiksviðinu í kringum akkerismenn sjónvarps.

Niðurstaða þess varð sú, að sjónvarpsfíklar sátu fyrir framan skjáinn sinn og sáu endalausar endurtekningar á stillimynd úr safni af Peter Arnett, sem sagðist tala úr hótelherbergi í Bagdad, og aðrar hliðstæðar stillimyndir eða akkerismyndir úr hótelgarði í Riyad.

Þetta minnti á endalausu myndirnar af hurðarhúninum í Höfða, er heimsveldastjórar voru þar á fundi. Sjónvarpsefni fundarins var langur leikþáttur um fréttastjór-ann, sem af einhverjum óskýranlegum ástæðum var af sumum talinn þriðji valdamesti maður landsins.

Eðli sjónvarps er afþreying og leikhús. Fréttaflutningur þess er því marki brenndur. Þess vegna eru sjónvarpsfréttir mun lakari upplýsingamiðill en útvarpsfréttir, sem ekki eru háðar hinum grimmu takmörkunum leikhússins. Þetta gildir hér sem annars staðar.

Vikum og jafnvel mánuðum saman hafa sjónvarpsfréttir verið fylltar af endalausu, daglegu viðtali við fimm menn, fyrst og fremst fjármálaráðherra, en einnig forsætisráðherra, utanríkisráðherra, viðskiptaráðherra og landbúnaðarráðherra. Þetta er rosalega þreytandi.

Meðan sjónvarpsfíklar horfa á hatta og hálsbindi fimm pólitíkusa til að geta síðar rætt um hatta og hálsbindi fimm pólitíkusa, fá fréttafíklar raunverulegar upplýsingar úr öðrum fjölmiðlum. En það merkilega er, að margir halda, að þeir sü að sjá fréttir í sjónvarpi.

Ef atburðir gerast svo hratt, að þeir eru fréttaefni mörgum sinnum á dag eða jafnvel í sífellu, er útvarpið sá fjölmiðill, sem í tímahraki segir bezta sögu. Það er athyglisvert, að mikill hluti fólks hefur misst sjónar á þessu og treystir eingöngu á fréttaleikhúsið.

Ef menn vilja hins vegar fá mikið magn upplýsinga, en sætta sig við að fá það ekki nema einu sinni eða tvisv-ar á dag, hafa prentaðir fjölmiðlar mikla yfirburði. Enda er greinilegt, að útbreiðsla sjónvarps dregur úr hlustun á útvarp, en hefur engin áhrif á dagblöð.

Í Persaflóastríðinu kom í ljós, að bezt var að fá stöðugar upplýsingar úr útvarpsstöðvum á borð við brezku gufuna og að áreiðanlegustu upplýsingarnar komu tvisv-ar á dag í prentuðum fjölmiðlum. Í Persaflóastríðinu kom í ljós, að sjónvarp er aðallega leikhúsafþreying.

Samt er fólk hugfangið af að hafa orðið vitni að stríði “í beinni útsendingu”. Sjónvarpsfíklar gera sér ekki grein fyrir, að það voru þeir, sem misstu af stríðinu.

Jónas Kristjánsson

DV