Frá Báreksstöðum í Borgarfirði til Grímsstaða á Mýrum.
Þessi leið er ekki forn, en er nú á tímum mikið farin af hestamönnum. Um hana fara Borgfirðingar á leið til fjórðungsmóts á Kaldármelum. Leiðin liggur um uppbyggða og malarborna dráttarvélaslóð um blautar mýrar milli Gufár og Langár. Áður var ekki farið með Langá, heldur með Gufá alla leið að Valbjarnarvöllum og síðan vestur um eyðibýlið Litla-Fjall að Grenjum, en slóðin yfir mýrina milli Gufár og Langár hefur gert þessa leið vinsælli. Þetta er önnur leið en sú, sem Þórður kakali og Kolbeinn ungi fóru vestur Mýrar 27 nóvember 1242. Þá var snjór og frost og þeir gátu farið það sem kallað var “vetrarvegur” beint af augum yfir mýrar og sund. Þurftu ekki að krækja fyrir torleiði. Þeir fóru sunnar en hér er lýst, um Álftártungu.
Förum frá Báreksstöðum norður með þjóðvegi 511 að Hvítárbrú við Ferjukot. Yfir brúna og vestur þjóðveg 510 með Þjóðólfsholti og síðan vestur um Krókatjörn og Eskiholt. Yfir þjóðveg 1 og áfram norður um sumarhúsahverfi og síðan vestur að eyðibýlinu Gufá. Þaðan norður með Gufá, framhjá Staðarhúsum að Laxholti. Þaðan förum við vestur mýrarnar milli Uxavatns að sunnanverðu og Álftavatns að norðanverðu, í Stangarholt. Förum suður fyrir bæinn og síðan vestur að Langá og norður með ánni. Förum yfir Langá á Sveðjuvaði, þegar við nálgumst eyðibýlið Grenjar, gegnum sumarhúsahverfi og síðan um slóð ofan við garða, gegnum hlið og á reiðleið undir Grenjamúla. Fylgjum þeirri leið áfram undir Grímsstaðamúla að Grímsstöðum.
28,1 km
Borgarfjörður-Mýrar
Skálar:
Grímsstaðir: N64 41.836 W21 56.604.
Nálægir ferlar: Múlavegur, Hraundalur.
Nálægar leiðir: Gufá, Hrosshyrna.
Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Jónas Kristjánsson