Ódýrast er að hafna þriðja flugvellinum á suðvesturhorninu og nota heldur þá, sem fyrir eru. Sú ákvörðun ein sparar 10-20 milljarða króna, sem er slatti af peningum. Vilji menn ekki flytja innanlandsflugið til Keflavíkur, verður það að vera áfram á gamla staðnum í Vatnsmýrinni. Þar væri að vísu gaman að endurlífga mýrina eða hafa þar kartöflugarða fyrir borgarbúa, í versta falli koma þar upp Árbæ. Miðbæir eru nægir á höfuðborgarsvæðinu, svo að óþarfi er að færa flugið til að fá lóðir. Engar lóðir þarf að útvega í Vatnsmýrinni, slíkt er bara meinloka, ónumið land er víðar.