Einkennilegt er að koma til mannabyggða og verst að heyra í sjónvarpi. Það er eins og að vera kominn á vitfirringahæli. Í hestaferðum eru viðmiðin önnur. Þar er spáð í járningar og ástand hesta, vatnsból og haga, veður og vinda. Einföld atriði. Hef ekki hugmynd um, hvað er að gerast. Geri þó ráð fyrir, að stríð sé í Miðausturlöndum og að ríkisstjórnin ráði ekki við sín mál. Í gærkvöldi var ég í símanum við bónda, sem upplýsti mig um útgrafinn reiðveg. Hann taldi mýrina betri en veginn. Þetta er Gullvegurinn, þar sem sauðakaupmaður glataði sjóði sínum. Samgönguminjum er enginn sómi sýndur.