Myrkviður ímyndarfræða

Greinar

Meiri og betri upplýsingar í fjölmiðlum og víðar hafa ekki reynzt vera sá hornsteinn vestræns þjóðfélags, sem áður fyrr var vonað. Almenningur kærir sig ekki sérstaklega mikið um að nota sér aukið og bætt upplýsingaflæði í umhverfinu til að taka skynsamlegar ákvarðanir.

Á sama tíma hefur aukizt tækni þeirra, sem reyna að villa um fyrir fólki, til dæmis með því að selja því ímyndir fremur en innihald. Þetta á við um allt sviðið frá fótanuddtækjum á jólamarkaði til frambjóðenda í kosningum. Fólk lætur jafnan ginnast unnvörpum.

Fólk, sem fylgist með, ætti raunar að vita nógu mikið til að geta séð gegnum innihaldsrýrar auglýsingar, innihaldsrýrar fullyrðingar og innihaldsrýr loforð. Samt sem áður tekst seljendum ímynda oftar en ekki að komast inn fyrir varnir fólks, sem ætti að vita betur.

Bandarískir ímyndarfræðingar eru farnir að hlaupast undan merkjum og skrifa bækur um reynslu sína. Í fyndinni bók um störf sín fyrir nokkra stjórnmálamenn fullyrðir ímyndarfræðingurinn Ed Rollins til dæmis, að hægt sé að gabba alla alltaf, ef sjóðir séu nógu digrir.

Í hvert sinn sem lakari vara, þjónusta eða persóna er tekin fram yfir betri vöru, þjónustu eða persónu vegna harðari markaðssetningar, er dregið úr líkum á frekara framboði góðrar vöru, þjónustu eða persóna. Það vandaða heltist úr lestinni í sigurgöngu ímyndarfræðanna.

Ekki þarf annað en að fara í stórmarkað og horfa í innkaupakörfur fólks til að sannfærast um, að það sé tæpast með réttu ráði. Körfurnar eru fullar af mikið unnu, óhollu og rándýru ruslfóðri, en vönduð, holl, eðlileg og ódýr vara er skilin eftir í hillunum.

Fólk fer í sérverzlanir og kaupir þar merkjavöru á tvöföldu eða margföldu því verði, sem sama vara kostar án merkisins. Sumt fólk gengur í merkjavöru með áberandi vörumerkjum, þannig að það auglýsir beinlínis ósjálfstæði sitt í innkaupum. Og þykir vera fínt.

Alvarlegust er innreið ímynda á kostnað innihalds í stjórnmálunum. Í kosningum eftir kosningar eru valdir til áhrifa stjórnmálamenn, sem ekki eru að gæta almannahagsmuna, heldur sérhagsmuna af ýmsu tagi og vinna þannig beinlínis gegn almannahagsmunum.

Þekktasta dæmið um þetta eru höftin á búvöruverzlun, sem kosta skattgreiðendur marga milljarða króna á hverju ári og neytendur einnig marga milljarða króna á hverju ári. Ef þessi höft af mannavöldum væru afnumin, mundu almenn lífskjör í landinu stórbatna.

Öllum má þetta ljóst vera, ef þeir fylgjast með og nenna að leggja saman tvo og tvo. Sumir gera það að vísu, en taka ekki afleiðingunum. Þeir halda áfram að endurkjósa þá stjórnmálamenn, sem vitað er, að muni standa vörð um sérhagsmunina að baki haftakerfi búvöruverzlunar.

Annað dæmi er eignarhald fiskimiðanna og afgjald þeirra. Nánast allir þeir, sem flutt hafa rök í þeim málaflokki, hafa mælt með auðlindaskatti eða veiðileyfagjaldi. Samt komast stjórnmálamenn áfram upp með þrönga sérhagsmunagæzlu gegn almannahagsmunum.

Fólk hefur allar ytri aðstæður til að fylgjast með og taka sjálfstæðar ákvarðanir. Umhverfi fólks er fullt af gagnlegum og trúverðugum upplýsingum, sem það hirðir ekki um að nota sér. Í staðinn hlaupa flestir eins og sauðir á eftir klisjum og innihaldsrýrum ímyndunum.

Tækni ímyndarfræðinganna vex því miður miklu hraðar en vilji og geta almennings til að brjótast gegnum myrkvið ruglsins út í ljós og birtu upplýsingaaldar.

Jónas Kristjánsson

DV