Þingkosningarnar í Írak um helgina eru upphafið að endalokum hernáms Bandaríkjanna. Sjítar eru fjölmennastir í landinu og munu mæta á kjörstað til að tryggja völd sín. Ríkisstjórn þeirra mun taka við af umboðslausri leppstjórn, sem starfar til bráðabirgða, en hefur engin raunveruleg völd í landinu.
Sjítar lúta einkum tveimur leiðtogum, hinir rólegri fylgja Ali al-Sistani erkiklerki að málum, en hinir róttækari halla sér að öðrum erkiklerki, Moktada al-Sadr, sem hefur eldað grátt silfur við bandaríska herinn. Búast má við, að Sistani verði valdamestur að tjaldabaki eftir þingkosningarnar.
Til að byrja með munu leiðtogar sjíta reyna að fara með löndum í samskiptum við súnníta, sem eru minnihluti og ætla auk þess ekki að greiða atkvæði. Til málamynda verða nokkrir súnnítar gerðir að ráðherrum, en ólíklegt er, að það nægi til að koma í veg fyrir borgarastyrjöld milli trúarhópanna.
Sjítar hafa lýst því yfir, að ekki verði komið á klerkaveldi að hætti Írans. Mjög fáir klerkar eru í framboði til þingsins og fullyrt er, að enginn þeirra verði ráðherra. Eigi að síður verða trúarleg áhrif mikil að tjaldabaki og mikið samband við ráðandi öfl í nágrannaríki sjíta í Íran.
Kosningarnar verða ekki líkar því, sem við eigum að venjast. Menn eiga auðvelt með að kjósa úti um allan heim, en erfitt er að kjósa víða í heimalandinu. Til dæmis er ekki séð, að flóttamenn frá eyðilögðu borginni Falluja verði fjölmennir á kjörstað, svo er bandaríska hernum fyrir að þakka eða kenna.
Athyglisverðara er þó, að mikill fjöldi frambjóðenda er nafnlaus. Þeir fela andlit sitt eins og lögreglumennirnir, svo að þeir verði ekki drepnir. Hryðjuverkamenn geta hins vegar leikið lausum hala án þess að fela sig. Það sýnir í hnotskurn hvorir hafa stuðning meðal almennings í landinu.
Eigi að síður munu niðurstöður kosninganna verða teknar gildar. Sjítar munu komast til valda og hefjast handa við að losna við bandaríska herinn. Súnnítar munu reyna að negla sjíta og bandaríska herinn saman með hryðjuverkum, sem leitt geti til samstarfs sjíta og Bandaríkjahers um gagnaðgerðir.
Sjítar vita, að þeim er lífsspursmál að losna við herinn sem fyrst, svo að þeir verði ekki stimplaðir sem hernámssinnar, sem eru afar óvinsælir meðal almennings samkvæmt könnunum. Þeir munu smám saman sækjast eftir auknu samstarfi við Íran, þar sem er ríkisstjórn afar fjandsamleg Bandaríkjunum.
Þetta er upphafið að endalokum hernámsins. Bandaríkjastjórn hefur fengið alla nema Kúrda upp á móti sér og missir leppstjórnina úr höndum sér í þingkosningunum um helgina.
Jónas Kristjánsson
DV