Mörgum góðviljuðum mönnum er illa við þá breytingu á drykkjusiðum þjóðarinnar, sem meðal annars felst í, að út um borg og bý situr fleira fólk en áður í litlum veitingastofum og sötrar annaðhvort létt vín eða eins konar bjórlíki – og heimtar þar á ofan alvörubjór.
Sérstök nefnd hins opinbera hefur skilað bindindissinnuðu áliti um opinbera stefnu í áfengismálum. Þar kennir margra grasa, en mest áherzla er lögð á að torvelda aðgang þjóðarinnar að vínanda og að hækka verð á vörum, sem innihalda þetta umdeilda efni.
Með tveimur tillögum nefndarinnar, annarri um 20% hækkun á víni á veitingahúsum og hinni um 10% viðbótarhækkun á sterku áfengi á veitingahúsum, er óbeint stefnt að því að færa neyzlu víns og áfengis af opinberum stöðum inn í heimahús og að fjölgun næturveizla í svefnhverfum.
Með tillögu nefndarinnar um almenna hækkun víns og áfengis er óbeint verið að stuðla að því að út um borg og bý verði meira af matarpeningum margra fjölskyldna notað til kaupa á vörunum, sem hrella nefndina svo mjög. Þetta mun koma niður á mörgum börnum þessa lands.
Með tillögu nefndarinnar um torveldaðan aðgang þjóðarinnar að víni og áfengi er óbeint verið að ýta neyzluvenjum fólks yfir í önnur efni, það er að segja bæði veik og sterk fíkniefni, sem eru í vaxandi mæli á boðstólum hér á landi, seljendum þeirra til ómælds hagnaðar.
Með tillögu nefndarinnar um bann við heimilisiðnaði er reynt að sporna gegn því, að þjóðin geti sjálf bætt sér upp torveldari aðgang að dýrara víni, bjór og áfengi, en um leið auðvitað óbeint stefnt að því, að fólk afli sér bruggunartækja og efnis á ólöglegan hátt.
Svo er líka margt fyndið í tillögum nefndarinnar, til dæmis að þeir, sem sviptir hafa verið ökuleyfi vegna ölvunar einnar, geti fengið það aftur, þegar þeir geti lagt fram vitnisburði tveggja valinkunnra manna, að þeir hafi þá ekki neytt áfengis í tvö ár!
Enginn vafi er á, að nefndarmenn eru í fullri alvöru og og miklum góðvilja að reynda að bæta þjóðfélagið með því að fá Íslendinga ofan af grunnmúruðum ósið, sem hefur fylgt mannkyninu í að minnsta kosti sex þúsund ár. En þeir eru um leið afar óraunsæir.
Raunar er einkennilegt, að nefndin sjálf og þeir, sem völdu bindindismennina á hana, skuli ekki átta sig á, að hluta af menningarsögu heimsins verður ekki útrýmt með þessum hætti. Gagnlegra hefði nefndinni verið að kynna sér mjög svo misjafna meðferð þjóða á víni og áfengi.
Með torveldari aðgangi að víni og áfengi, með hækkun verðs á víni og áfengi, með banni við áfengum bjór og með banni við heimilisiðnaði á þessum sviðum fæst sú niðurstaða ein, að alls konar ólögleg starfsemi færir út kvíarnar og eykur gróðamöguleika sína.
Ef tillögur hinnar bindindissinnuðu nefndar yrðu að veruleika, mundi verksvið ýmissa ólöglegra athafna margfaldast svo hér á landi, að mafíur og aðrir alþjóðlegir glæpahringir mundu fá aukinn áhuga á Íslandi. Mafían náði sér einmitt á strik í Bandaríkjunum á bannárunum.
Ekkert er við það að athuga, að góðviljað fólk láti að sér kveða. En raunveruleikinn vill oftast og raunar nærri alltaf verða annar en draumsýnin gerði ráð fyrir. Þess vegna er stjórnvöldum ekki ráðlegt að taka mark á sérdeilis nærsýnum tillögum af því tagi.
Jónas Kristjánsson
DV