Nærtækari hagsmunir

Greinar

Hagsmunir okkar af veiðum í Síldarsmugunni og á Reykjaneshrygg eru miklu meiri en hagsmunir okkar af veiðum í Smugunni í Barentshafi. Hinir fyrrnefndu eru meiri í beinum krónum talið og þeir eru þar að auki í næsta nágrenni við okkar eigin fiskveiðilögsögu.

Miðað við stofnstærð og eðlilega veiðihlutdeild Íslendinga í Síldarsmugunni má ætla, að þar séu um fjögurra milljarða króna hagsmunir Íslendinga. Er þá miðað við, að við getum samið við aðra helztu hagsmunaaðilana um að fá um það bil þriðjung af leyfilegri síldveiði.

Er þá líka miðað við, að Íslendingar, Norðmenn og Færeyingar komi sér saman um, að árlega verði veidd 20% af síldarstofninum á þessu svæði og að þessi ríki, sem hafa fiskveiðilögsögu, er liggur að smugunni, geti samið um að halda öðrum aðilum sem mest frá svæðinu.

Augljóst er, að Íslendingar, Norðmenn og Færeyingar þurfa sem allra fyrst að koma veiðistjórn á Síldarsmuguna, burtséð frá því, hvernig þjóðirnar þrjár skipta með sér afla. Deilur um innbyrðis skiptingu mega ekki koma í veg fyrir, að ofveiði annarra aðila verði hindruð.

Svipað gildir um Reykjaneshrygginn. Hann liggur að fiskveiðilögsögu Íslendinga og Grænlending. Þær tvær þjóðir þurfa sem allra fyrst að ná samkomulagi um veiðistjórn á honum til að hindra ofveiði af hálfu úthafsveiðiþjóða, sem nú eru að flykkjast þangað á karfamiðin.

Samkvæmt veiðiráðgjöf má lítið auka sókn í karfa á Reykjaneshrygg. Þar hafa Íslendingar hingað til haft rúman helming aflans. Við þurfum að varðveita þá hlutdeild og semja um hámarksafla á svæðinu. Þetta eru hagsmunir okkar upp á hálfan þriðja milljarð króna.

Samtals má telja, að hagsmunir okkar af síldveiðum í Síldarsmugunni og karfaveiðum á Reykjaneshrygg nemi sjö eða átta milljörðum króna. Þetta eru helmingi meiri hagsmunir en fjögurra milljarða hagsmunir af nýlegum þorskveiðum okkar í Barentshafi samanlögðu.

Hafa verður í huga, að Svalbarðaveiðarnar gáfu í fyrra meira en helminginn af afla okkar í Barentshafi, en veiðar í Smugunni innan við helming aflans. Alls engar horfur eru á, að okkar skip nái framvegis að veiða á Svalbarðasvæðinu vegna ofríkis norsku strandgæzlunnar.

Veiðar okkar í Barentshafi munu framvegis takmarkast við tíu til tuttugu þúsund tonna möguleika í Smugunni og eins til tveggja milljarða króna aflaverðmæti. Við getum reynt að verja þessa hagsmuni og getum áreiðanlega náð samningum við Norðmenn um slíkan hlut.

Á sama tíma og við þurfum að verja hagsmuni strandríkja með oddi og egg í Síldarsmugunni og á Reykjaneshrygg erum við að verja hagsmuni úthafsveiðiríkja í Smugunni. Of mikil áhrzla á hana spillir sjálfkrafa öðrum og meiri hagsmunum okkar á nærtækari miðum.

Norðmenn eru þegar búnir að hafa af okkur meira en helminginn af aflamöguleikum okkar í Barentshafi með því að loka Svalbarðasvæðinu. Þess vegna er óraunhæft að tala um fjörutíu þúsund tonna þorskafla í Smugunni. Hún mun í mesta lagi gefa fimmtán þúsund tonn á ári.

Þess vegna skiptir ekki miklu máli, hvort við semjum við Norðmenn um fimmtán þúsund tonn í Smugunni eða veiðum þar áfram fimmtán þúsund tonn án samninga. Aðalatriðið er, að þetta trufli ekki brýna hagsmuni okkar af samningum við þá og aðra um hin svæðin tvö.

Misvægi hagsmunanna er ljóst. Annars vegar er hálfur annar milljarður króna í Smugunni og hins vegar sjö- átta milljarðar í Síldarsmugunni og á Reykjaneshrygg.

Jónas Kristjánsson

DV