Næst á að drekkja okkur

Greinar

Básendaflóð fyrir tveimur öldum gekk yfir Kolbeinsstaðamýri og gerði Seltjarnarnes að eyju í nokkra daga. Annað eins flóð kemur aftur vegna sveiflna í samspili náttúruafla, örugglega á þessari öld, af því að yfirborð sjávar hækkar örar en áður vegna hnignunar íss á Norðurhöfum og Grænlandi.

Búast má við mannslátum í Kolbeinsstaðamýri og í Kvosinni í næsta stórflóði. Ráðamenn skipulags hafa aldrei tekið neitt tillit til náttúruafla, hvorki til snjóflóða og skriðufalla á Vestfjörðum og Austfjörðum né til flóða við Suðvesturland. Þess vegna hefur verið byggt niður í sjó í höfuðborginni.

Gera má ráð fyrir vandræðum við sjávarsíðuna, þar sem gólf eru í innan við fimm metra hæð yfir stórstraumsflóði. Slíkar aðstæður eru á nokkrum stöðum á höfuðborgarsvæðinu, af því að pólitíkusar og skipulagsstjórar hafa engan áhuga á þeim fimbulkröftum, sem felast í úthöfunum og lofthjúpnum.

Nú hefur borgarstjórnarflokkur Sjálfstæðismanna í Reykjavík lagt fram tillögur, sem munu leiða til, að margfalt fleiri borgurum en ella verði drekkt í næsta Básendaflóði. Ráðgert er að þenja byggðina út í Hólmann, Akurey, Engey og Viðey og byggja stór hverfi yfir hafsbotni umhverfis eyjarnar.

Við skulum láta liggja milli hluta, að flokkurinn hefur ekki reynt að kanna áhrif byggðar í sjó á innviði gatnakerfisins, til dæmis á flutningsgetu Hringbrautar og Sæbrautar. Líklega verður hægt að leggja slíkar götur í stokka til að þjónusta hugmyndafræði flokksins, en það mun kosta morð fjár.

Meira máli skiptir, að bara kollar sumra eyjanna ná upp í fimm metra hæð. Sjálfstæðismenn verða að láta flytja ógrynni af jarðvegi út í eyjarnar og sturta ógrynni af jarðvegi í sjóinn til að búa til land, þar sem gólfplötur þurfa að verða í meira en fimm metra hæð yfir stórstraumsflóði.

Kosta mun ógrynni fjár að ganga frá landhæð og varnargörðum, svo að næsta Básendaflóð fleygi ekki öllu með manni og mús á haf út. Engar tilraunir eru gerðar í tillögunni til að meta, hvað kostar að tryggja öryggi eyjabyggða, ekki frekar en að meta kostnað við samgöngur til þeirra.

Hugmyndin um Reykjavík úti í sjó umhverfis eyjar og sker er hrein firra, sem slær út vitleysur Reykjavíkurlistans í skipulagsmálum. Hún mun drekkja mörgum Reykvíkingum.

DV