Næst er það stríð við Íran

Greinar

Bandaríkjastjórn er að undirbúa stríð við Íran. Forsendurnar eru tvær. Í fyrsta lagi var Íran á sínum tíma efst á lista George W. Bush Bandaríkjanna yfir öxul hins illa í heiminum. Í öðru lagi hefur komið í ljós, að Íran hefur leikið tveimur skjöldum í kjarnorkumálum og verður um síðir kjarnorkuveldi.

Raunveruleg ástæða fyrir stríði við Íran er hins vegar sú, að vegur forsetans og flokks repúblikana fer ört lækkandi í Bandaríkjunum. Spunameistarar flokksins telja, að fátt geti hindrað ósigur í næstu þingkosningum eftir rúmt ár annað en sigursæl árás, sem þjappi Bandaríkjamönnum um leiðtoga sinn.

Auðvitað er vont, að Íran verði kjarnorkuveldi. Það var vont, að Ísrael varð kjarnorkuveldi, en Bandaríkin hafa ekki sýnt miklar áhyggjur af því. Það var vont, að bæði Indland og Pakistan urðu kjarnorkuveldi, en Bandaríkin hafa samt látið það yfir sig ganga. Þau gera sér greinilega mannamun.

Stríðið við Írak er orðið gamalt og óvinsælt. Það er ekki lengur nothæft kosningamál. Nýtt stríð við Íran verður ekki orðið gamalt og óvinsælt í næstu kosningum. Það verður passlega nýtt til að fleyta meirihluta repúblikana á þing fram til næstu forsetakosninga, sem verða eftir rúm þrjú ár.

Bandaríkin geta farið í stríð við Íran, þótt mikið af hernum sé enn upptekið við hernám Íraks. Einkum er flugherinn laus við Írak og getur í einni árás tekið fyrir 5000 skotmörk í Íran. Sérfræðingar stríðsráðuneytisins telja, að ekki verði erfitt að eyðileggja olíulindir og kjarnorkuver Írans.

Sennilega mun árásin á Íran ekki miða að hernámi landsins, því að það verður stærri biti en Írak. Hún mun stefna að því að eyðileggja olíulindir og ýmsa innviði landsins og spilla kjarnorkurannsóknum. Hún mun einnig reyna að æsa upp minnihlutahópa Azera og Kúrda, sem búa innan landamæranna.

Menn vita samt um neikvæð hliðaráhrif. Þeir hafa reynsluna frá Írak, sem er ekki eins fjölmennt ríki og alls ekki með eins sterka innviði og Íran. Menn vita, að stríðið mun framleiða hryðjuverkamenn og rýra öryggi Vesturlanda. Sjítar um allan heim verða harðari óvinir. Olía mun hækka í verði.

Eins og venjulega munu Bretar verða aukahjól stríðsvagnsins og að þessu sinni verður öll Evrópa andvíg. En Bandaríkin nærast á stríði og munu ekki taka mark á andstöðu heimsins.

DV