Næst heimta þeir fráfærur.

Greinar

Búnaðarþing hefur samþykkt að láta prófa að taka fráfærur upp á ný til að framleiða osta úr sauðamjólk. Ekki fylgdi samþykktinni, að prófað skyldi, hvort sauðskinnsskór gætu hentað við störf að þessari nýstárlegu og gamalkunnu búgrein.

Samþykktin er dæmi um, að forustumenn landbúnaðarins eru smám saman að gera sér óljósa grein fyrir ógöngum hins hefðbundna landbúnaðar lambakjöts og kúamjólkur. Þeir seilast æ lengra í örvæntingarfullri leit að nýjum búgreinum.

Vegna hinna síðustu köldu ára hefur offramleiðsla landbúnaðarafurða haldizt að meðaltali í horfinu. Offramleiðsla mjólkur hefur minnkað og offramleiðsla lambakjöts hefur aukizt. Hvað gerist svo, ef gott ár kemur?

Ríkið sækir æ fastar að innlendum neytendum að koma þessum afurðum í lóg. Það reynir að auka söluna með niðurgreiðslum. Þær eiga á þessu ári að nema 466 milljónum króna. Þar er verið að búa til markað, sem ekki fær staðizt til lengdar.

Nú er svo komið, að við greiðum 5,70 krónur fyrir mjólkurlítrann yfir borðið og 3,14 krónur til viðbótar í formi skatta, – að við greiðum 56,50 krónur fyrir smjörkílóið yfir borðið og 57 krónur til viðbótar í formi skatta.

Þegar við getum ekki torgað meiru, er afgangurinn fluttur til útlanda, þar sem enginn vill kaupa hann, ekki einu sinni Norðmenn, sem hafa einnig komið sér upp offramleiðslu á eigin dilkakjöti. Því er fátt til ráða.

Á þessu ári hugðist ríkið greiða 160 milljónir króna til uppbóta á útfluttar landbúnaðarafurðir, einkum lambakjöt. Þetta dugir hvergi til og því ætlar ríkið að gefa 34 milljónir króna til viðbótar, sumpart á kostnað afkomenda okkar.

Hingað til hefur offramleiðslustefnan einkum verið rekin á kostnað skattgreiðenda. En nú hefur landbúnaðarráðherra upplýst, að tekin verði lán upp í viðbótina, svo að börnin okkar fái líka að borga kjötið handa útlendingunum.

Nýlega rak á fjörur ríkisins bandarískan kaupmann, sem vildi kaupa 1.500 tonn af dilkakjöti á 10 krónur kílóið. Við athugun kom í ljós, að tilboð hans dugði varla fyrir kostnaði við sjálfa slátrunina, hvað þá fyrir öðru.

Vondar eru niðurgreiðslurnar og uppbæturnar. Verri eru þó styrkirnir, sem ríkið veitir til fjárfestingar í hinum hefðbundna landbúnaði, svo að endaleysan fái að framlengjast sem lengst. Þeir eiga að nema 78 milljónum króna á árinu.

Með þessum styrkjum er stuðlað að umfangsmikilli fjárfestingu í landbúnaði, þrátt fyrir aðrar tilraunir til að draga úr framleiðslu hans. Á þessu ári er reiknað með, að fjárfesting í landbúnaði verði svipuð og í fiskiðnaði.

Með öllu þessu er ríkið að stuðla að framleiðslu á afurðum, sem eru gífurlega offramleiddar í iðnríkjunum beggja vegna Atlantshafs, í stað þess að reyna að nota ríkidæmi skattgreiðenda til að stuðla að skynsamlegri framleiðslu.

Við innflutningsfrelsi landbúnaðarafurða og afnám niðurgreiðslna, útflutningsuppbóta og framkvæmdastyrkja munum við ekki þurfa nema þriðjung núverandi framleiðslu mjólkur og lambakjöts. Við gætum beint kröftunum að arðbærari verkefnum.

Í landi fullrar atvinnu má tala um þetta og benda ríkinu á að nota landbúnaðarpeningana heldur til að byggja iðngarða í strjálbýli og til að efla fiskirækt, loðdýrarækt og ylrækt.

Meðan talað er um fráfærur á Búnaðarþingi.

Jónas Kristjánsson

DV